Ekkert ferðaveður á morgun

Sjá má að allt landið verður undirorpið viðvörunum.
Sjá má að allt landið verður undirorpið viðvörunum. Kort/Veðurstofa Íslands

Rauð viðvörun tekur gildi á morgun fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi. Ekkert ferðaveður verður víðast hvar á landinu og betur heima setið að mati Helgu Ívarsdóttur veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Á Norðurlandi vestra verður appelsínugul viðvörun allan daginn, en á Norðurlandi eystra og á Austurlandi kemur rauð viðvörun inn í þá appelsínugulu. Sú rauða tekur gildi klukkan 13 á Norðurlandi eystra, en klukkan 17 á Austurlandi að Glettingi og er í gildi í 7 til 8 klukkustundir á hvorum stað. 

Annars staðar verður gul viðvörun. 

Mikil úrkoma

„Það er von á vonskuveðri, mikil úrkoma fylgir og svo verður stormur og rok á austanverðu landinu. Einnig stormur á vestanverðu landinu. Úrkomumest verður um landið norðaustanvert og þar má búast við mikillli úrkomu sem fellur bæði sem rigning og slydda á láglendi en aðallega sem snjókoma til fjalla,“ segir Helga. 

Þá verður mjög hvasst á Austurlandi, með strekkingi við fjöll og búast má við sandfoki eða grjótfoki. 

Helga segir að þessi lægð sé ólík þeirri síðustu. 

„Þá var aðallega vindur og hvassara en núna. Nú verður ekki eins mikill vindur en við erum með mjög mikla úrkomu og stór hluti fellur sem snjókoma þannig að þetta líkist frekar veðri sem var í september 2012 þar sem mikið af búfénaði fórst í veðri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert