Á Álftanesi býr þúsundþjalasmiðurinn Sigmundur sem fellur aldrei verk úr hendi, en það er greinilega fátt sem hann hefur ekki smíðað. Hús, húsgögn og handverk; allt leikur í höndunum á honum.
Sigmundur segist alltaf hafa viljað verða smiður.
„Alveg frá upphafi, það var aldrei neitt vafamál. Þetta er fjölbreytt starf. Ég innréttaði ýmsa veitingastaði, eins og Grillmarkaðinn, Loftið í Austurstræti, Ostabúðina og Sandholtsbakarí,“ segir Sigmundur og bendir á stól og koll sem hann hefur sjálfur hannað og smíðað. Stólarnir hafa einmitt verið notaðir á veitingastöðum og eitt sinn kom fyrir að gestur einn reyndi að stela einum slíkum.
„Það var einn fullur á leiðinni út með stól. Hann langaði svo í hann,“ segir Sigmundur og brosir út í annað.
Sigmundur býður blaðamanni inn í garðskála þar sem finna má alls kyns muni sem hann hefur smíðað. Þar kennir ýmissa grasa en Sigmundur smíðar þverslaufur, kertastjaka, litlar skeiðar, bretti, jólaskraut og jólatré, skálar og bolla, svo eitthvað sé nefnt. Hann er hógvær þegar blaðamaður hrósar honum fyrir fallegt handverk.
„Þetta er þjálfun,“ segir Sigmundur og segist eitt sinn hafa slasað sig á hendi á spýtu sem hann var að renna.
„Höndin bólgnaði öll upp og ég vaknaði um nóttina og þá var giftingahringurinnn að hverfa og fingurinn orðinn blár. Ég fór fram og sagaði hringinn í sundur en náði honum ekki af fyrr en ég tók silungakróka sem ég krækti hvorum í sinn endann og kippti í. Það er ekkert mál að slasa sig á þessu.“
Ítarlegt viðtal er við Sigmund í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.