Íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað um tæplega fimm þúsund á síðustu tíu mánuðum. Þrátt fyrir það er fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu undir meðaltali landsins, eða 2,1% á móti 2,8% á landsvísu. Alls fjölgaði íbúum landsins um 9.021 síðustu tíu mánuði samkvæmt samantekt Þjóðskrár. Íbúar eru nú 385 þúsund alls.
Rekja má hluta þessarar fjölgunar til flóttafólks en eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í gær hefur 2.121 umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi verið samþykkt á fyrstu átta mánuðum ársins.
Ellefu þingmenn fóru nýlega til Danmerkur og Noregs þar sem þeir kynntu sér meðal annars málefni flóttamanna.
Eyjólfur Ármannsson, 1. varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir málaflokkinn virðast hafa farið úr böndunum hér á landi.
„Við þurfum að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar, líkt og þessar þjóðir gera, og tryggja að fólk sem sækir um vernd fái réttláta málsmeðferð og uppfylli alþjóðleg skilyrði til að fá verndina,“ segir Eyjólfur í samtali við Morgunblaðið. 4 og 11