Gísli Finnsson, íslenskur karlmaður sem fannst meðvitundarlaus fyrir utan veitingastað á Torrevieja á Spáni þann 21. ágúst, lennti á Reykjavíkurflugvelli stuttu fyrir klukkan 18 í dag.
Hildur Torfadóttir, barnsmóðir Gísla, var himinlifandi yfir því að loks væri hann á leið heim, þegar mbl.is náði tali af henni fyrr í dag.
„Þótt fyrr hefði verið,“ segir Hildur og hlær. „Það er bara æðislegt að þetta sé loksins að gerast, og þetta er búið að gerast svo hratt núna eftir að við stofnuðum söfnunina,“ bætir hún við en Gísli flýgur með norsku sjúkraflugi.
Hildur segir að um sé að ræða stóran létti fyrir sig og aðra aðstandendur, sem fundið hafa fyrir miklu álagi síðustu vikur meðan hann var úti.
„Nú veit maður að hann er í öruggum höndum, maður getur alltaf heimsótt hann og þetta verður allt svo miklu auðveldara.“
Spurð hvað tekur við segir Hildur að Gísli verði færður á Landspítalann Fossvogi. „Ég veit í raun ekki hvað tekur við, örugglega einhverjar rannsóknir og vonandi fáum við að vita betur stöðuna á honum – hvað er að honum. Því við höfum lítið um svör fengið þarna úti.“
Í öllu falli sé það stórt skref að fá hann heim.
„Við verðum þarna örugglega, klappstýrurnar, á Reykjavíkurflugvelli þegar hann lendir.“