Handtóku mann og fundu boga við húsleit

Nokkur fjöldi eggvopna hefur verið haldlagður í tengslum við rannsókn …
Nokkur fjöldi eggvopna hefur verið haldlagður í tengslum við rannsókn lögreglunnar á örvarskoti í hross í grennd við Selfoss. Samsett mynd

Einn hefur verið handtekinn og nokkur fjöldi eggvopna haldlagður í tengslum við rannsókn lögreglunnar á örvarskoti í hross í grennd við Selfoss. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Í tilkynningunni kemur fram að rannsókn málsins hafi hafist strax í gær og í kjölfarið hafi húsleit verið framkvæmt í nágrenni Selfoss.

Nutu liðsinnis sérsveitarinnar

Eins og mbl.is greindi frá í dag kom Arn­ar Þór Kjærnested, íbúi í Tjarna­byggð að hestinum sínum Ými með stærðarinnar ör í lærvöðvanum síðdegis í gær. Hann gerði lögreglu viðvart samstundis.

Sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðaði lögregluna á Suðurlandi við aðgerðirnar en hald var lagt á boga, örvar og nokkurn fjölda eggvopna í húsleitinni að því er fram kemur í tilkynningunni.

Ýmir með örina í lærinu.
Ýmir með örina í lærinu. Ljósmynd/Aðsend

Arnar sagði í samtali við mbl.is að örin hefði rist svo djúpt í læri Ýmis að mikinn ásetning þyrfti til. Þá hafi bogamaðurinn þurft að standa nálægt hestinum til þess að ná svo miklu afli í skotið.

Lögregla segir rannsókn málsins miða vel fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert