Hross skotið með stærðarinnar ör

Örin var engin smásmíði og var skotið djúpt inn í …
Örin var engin smásmíði og var skotið djúpt inn í lærvöðva Ýmis. Ljósmynd/Aðsend

Arnar Þór Kjærnested, íbúi í Tjarnabyggð við Selfoss, var harmi sleginn í gær þegar hann sá að stærðarinnar ör hafði verið skotið í lærvöðva hestsins Ýmis.

„Ég bara skil þetta ekki, hvað vakir fyrir fólki,“ segir Arnar í samtali við mbl.is um atvikið en hann veit enn ekki hver spennti upp boga og skaut örinni.

Ýmir er 24 vetra og hefur reynst Arnari og fjölskyldu …
Ýmir er 24 vetra og hefur reynst Arnari og fjölskyldu traustur klár. Ljósmynd/Aðsend

Alveg nýtt fyrir dýralækninum

Ými heilsast ágætlega að sögn Arnars en dýralæknir var kallaður til um leið og hann sá hvað hafði skeð. Að sögn Arnars hafði sá aldrei þurft að leysa úr viðlíka tilviki en það er þó algengt að hross verði fyrir skotum vegna slysa.

Arnar vonast til þess að þetta sé eindæmi en þykir það ógnvekjandi hve djúpt örin fór inn í lærvöðva hrossins. Sá sem skaut örinni hafi þurft að vera mjög nálægt hrossinu til þess að koma því svo djúpt og hafa ásetning til þess. 

„Þú gerir þetta ekkert af fimmtíu metra færi,“ segir Arnar.

Lögreglan með málið á sínu borði

Lögreglan á Suðurlandi hefur þegar hafið rannsókn á málinu og Arnar hefur fulla trú á því að hún kveði málið í kútinn. 

„Manni finnst maður bara ekki búa í svona landi,“ segir Arnar og bendir á að Tjarnir séu uppfullar af dýralífi og hrossum.

Arnar segir það huggun harmi gegn að örin hefði ekki getað hæft hestinn á betri stað en lærvöðva. Hann hefur fullra trú á því að Ýmir nái sér aftur að fullu en hann verður á sýkla- og verkjalyfjakúr næstu daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert