Kínverskri konu synjað um mánaðardvöl

Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála höfnuðu beiðni konunnar með vísan til …
Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála höfnuðu beiðni konunnar með vísan til 20. gr. laga nr. 80/2016 um vegabréfsáritanir. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti á föstudag úrskurð kærunefndar útlendingamála um synja kínverskri konu um vegabréfaáritun vegna fyrirhugaðrar mánaðarlangrar heimsóknar.

Konan var talin vera „innflytjendaáhætta á Schengen-svæðinu“, að því er orðrétt segir í ákvörðun Útlendingastofnunar, sem var áfrýjað til kærunefndarinnar.

Konan, sem er gift íslenskum ríkisborgara, höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til að fá úrskurð kærunefndar útlendingamála ógiltan og fellda ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun áritunar úr gildi.

Hérað konunnar flokkað sem rautt

Málið hófst þegar konan fór í íslenska sendiráðið í Peking og óskaði eftir vegabréfsáritun fyrir mánaðarlangri heimsókn frá miðjum júlí og fram í ágúst 2018. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála höfnuðu þeirri beiðni.

Konan hélt því fram að þau sjónarmið sem kærunefndin og Útlendingastofnun hafi litið til hafi verið ómálefnaleg og andstæð lögum. Þá vísaði hún sérstaklega til sérstaks landamærakorts sem flokkaði héröð eftir því hve mikil áhættusvæði þau eru talin vera. 

Í því korti var heimahérað konunnar merkt rautt, og mikil hætta talin vera á því að einstaklingar þar muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en þeir hafi heimild til.

Á dóttur í Kína sem hún myndi ekki flytja frá

Konan vísaði til þess að hún væri gift íslenskum ríkisborgara og hefði margoft ferðast frá Kína og alltaf komið til baka. Þá væri hún vel stæð á kínverskan mælikvarða, ætti skuldlausa fasteign og því sem nemur tvöföldum árslaunum á bankabók. Auk þess ætti hún dóttur í Kína sem hún myndi ekki vilja flytja frá.

Landsréttur féllst ekki á að það hafi verið andstætt lögum eða með einhverju móti ómálefnalegt að líta til þeirra sjónarmiða sem kærunefnd útlendingamála byggði niðurstöðu sína á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert