Kýrskýrt um miðja nótt

„Ég vakna stundum um miðjar nætur og stekk fram og …
„Ég vakna stundum um miðjar nætur og stekk fram og skrifa kafla. Ef ég skrifa það ekki strax, fer þessi hugljómum,“ segir rithöfundurinn Guðrún Guðlaugsdóttir. mbl.is/Ásdís

Mannsmyndin er níunda bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu, sem nú fæst við hlaðvarpsgerð. Guðrún segir bækurnar samtímaheimildir og að Alma eldist eins og aðrir.

„Meginstefið í þessari bók er einmanaleiki sem fólk lendir í vegna ytri aðstæðna, uppeldis og fjölskyldusögu. Bækurnar um Ölmu eru um blaðamann sem missir vinnuna og reynir ýmislegt. Það er kannski ekki eðlilegt að ein manneskja verði vitni að svona mörgum morðum og drápum, en hún lendir í því aftur og aftur,“ segir Guðrún og segir Ölmu nú vera komna í hljóðver að búa til hlaðvarpsþætti. 

„Alma fær það verkefni að taka viðtal við gamlan mann á hjúkrunarheimili sem á sérkennilega sögu að baki. Svo verður dauðsfall,“ segir hún og vill ekki gefa upp meira.

Leiðir fólk á villigötur

„Ég er skorpumanneskja,“ segir Guðrún þegar hún er spurð út í vinnubrögð sín sem rithöfundar.

„Ég er óreiðumanneskja en hef þó einhverja reiðu. Ég vakna stundum um miðjar nætur, stekk fram og skrifa kafla. Ef ég skrifa það ekki strax, fer þessi hugljómun. Það er eins og hugurinn vinni á nóttunni og stundum verður eitthvað kýrskýrt um miðja nótt. Maður býr til heim og áður en maður veit af býr maður í þessum hliðarveruleika,“ segir hún og segist aldrei setja sér reglur um hversu lengi hún skrifi daglega. Guðrún skrifar reglulega greinar og viðtöl fyrir Virk og Lifðu núna, þannig að enn fær hún útrás sem blaðamaður í bland við skáldskapinn.

„Það er einn grundvallarmunur á því að vera rithöfundur og blaðamaður. Sem blaðamanni ber manni að upplýsa fólk og hafa allt satt og rétt. En rithöfundurinn leitast við að leiða lesandann á villigötur,“ segir hún og brosir.

Ítarlegt viðtal er við Guðrún í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert