Lægðin sem mun stjórna óveðrinu sem gengur yfir landið er rétt að myndast. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segist sjaldan hafa séð spáð jafnmikilli úrkomu.
„Þetta er óvenjulega mikil úrkoma sem fellur á skömmum tíma. Ég held að veðurfræðingarnir hér séu flestir sammála um að þetta er ansi mikið,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Tekur hún undir orð Elínar Jónasdóttur veðurfræðings, sem segist sjaldan hafa séð viðlíka úrkomu í spám.
Rauðar viðvaranir á morgun, ég hef ekki oft séð viðlíka úrkomu í veðurspám og er í spánni fyrir morgundaginn. pic.twitter.com/DqscmWNDnF
— Elín Jónasdóttir (@elinbjon) October 8, 2022
„Þetta er í raun og veru ástæðan fyrir því að við förum á rauðan. Það er mikil úrkoma og stormur með,“ segir hún. Mikil ákefð sé í veðrinu á meðan á því stendur og að úrkomunni sé spáð yfir stuttan tíma.
„Það má geta þess að lægðin sem mun stjórna þessu er rétt að fara að myndast. Þetta kerfi er ekki stórt. Hún er að myndast og dýpka hratt og þá er aðeins meiri óvissa í veðrinu,“ segir hún. Stærsti óvissuþátturinn felst í því hvort von verði á úrkomu, slyddu eða snjókomu en ljóst er að sums staðar er hitastigið við frostmark.
„Þá þarf ekki mikið til að þetta breytist í snjókomu. Það er mikil óvissa í þessari spá varðandi hvar mörkin liggja milli rigningar og snjókomu. Ég gæti trúað því að fólk sjái rigningu, slyddu og snjókomu.“
Þá sé betra að vera ekki á ferðinni: „Hafa frekar „innikósí“ sunnudag,“ segir hún í lokin.