Lögreglan á Norðurlandi eystra margbiðlar til fólks að halda sig heima á morgun vegna veðurs, enda sé veðurspáin afleit.
„Í nótt og sérstaklega í fyrramálið versnar veður hratt og hvergi á landinu verður ferðaveður og sérstaklega slæmt hér norðanlands, Í raun alveg glórulaust fram á annað kvöld/aðra nótt,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
„Við viljum biðla til ykkar að leggja alls ekki í ferðir, hlusta og horfa á veðurspá og vera bara heima.“
Yfirvöld, viðbragðsaðilar, veitustofnanir og almannavarnarkerfið allt er í viðbragðsstöðu, að sögn lögreglu, og verður staðan metin ört og fylgst grannt með framvindu veðursins.
„Í öllum bænum verið þið bara heima en ef þið þurfið nauðsynlega að fara milli landshluta, gerið það þá bara í dag en ekki á morgun.“
Þá kemur fram að ljóst sé að flestum,ef ekki öllum, fjallvegum verði lokað í fyrramálið.