Óljóst hvers vegna rafmagni sló út

Rafmagnslaust var á Hafnartorgi og víðar í gær.
Rafmagnslaust var á Hafnartorgi og víðar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki liggur enn fyrir ástæða rafmagnsleysisins í miðbæ og Vesturbæ í gærkvöldi, önnur en sú að vitað er að rafmagni sló út í rofa í spennustöðinni A1 á Barónsstíg. Rafmagnsleysið stóð yfir í tæpar tvær klukkustundir.

„Stundum er það þannig að verktakar taka í sundur einhverja strengi. Það virðist ekki hafa verið þarna, eða við höfum alla vega ekki heyrt um neinn sem hefur látið okkur vita af því,“ segir Breki Logason, samskiptastjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Segir hann að vinnuflokkar verði sendir út að finna út hvar bilunin er. „Við sjáum bara á kerfinu okkar hvað er úti.“

Flókið kerfi

Breki segir kerfið flókið, spennan sé færð milli strengja í slíkum tilfellum auk þess sem tímafrekt sé að slá rafmagninu aftur inn.

„Það eru alls konar öryggiskröfur sem fylgja því, að slá því aftur inn,“ segir hann. „En það voru bara vinnuflokkar sem fóru í það um leið og þetta gerðist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert