Starfsfólk ASÍ hugsi sér til hreyfings

Starfsfólkið segist vera langþreytt.
Starfsfólkið segist vera langþreytt. mbl.is/Hjörtur

Sviðsstjórar á skrifstofu ASÍ segja það óásættanlegt að ásakanir á hendur starfsmönnum sambandsins séu birtar í fjölmiðlum án þess að þeir hafi tækifæri til þess að svara fyrir sig. 

Agniezka Ziólkowska, fyrrum formaður félagsins, fékk aðgang að tölvupósthólfi forvera síns, Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar sem var áður framkvæmdastjóri félagsins. 

Aðgangur að tölvupósti skilyrðum háður

Halldór Oddsson, persónuverndarfulltrúi Eflingar og lögmaður ASÍ, heimilaði aðgengið að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að því er Kjarninn greindi frá

Starfsmenn ASÍ sem mbl.is hefur rætt við segja marga starfsmenn hugsa sér til hreyfings og komandi kosningar til forseta kunni að spila þar inn í.

Ragnar segir athæfið glæpsamlegt

Ragnar Þór Ingólfsson, annar varaforseti ASÍ og frambjóðandi til forseta sambandsins, sagði á Facebook-síðu sinni að það hefði verið „hrikalegt og án nokkurs vafa glæpsamlegt“.  

Telja sér skylt að blanda sér inn í umræðuna

Í yfirlýsingunni sem sviðstjórar ASÍ sendu á formenn allra verkalýðsfélaga innan Alþýðusambands Íslands segja þeir sig telja sér skylt að blanda sér inn í umræðuna í ljósi þess að Halldór hafi verið dreginn inn í hana á opinberum vettvangi.

Í áliti Halldórs kom fram að Sólveigu og Viðari hafi verið gefinn kostur á að eyða öllum sínum einkasamskiptum úr pósthólfinu en að því loknu hafi restin verið eign félagsins. Félaginu hafi í raun borið skylda til þess að vista gögnin og passa upp á þau.

Birtingarmynd umræðuhefðar verkalýðsforingja

„Það er síðan annað mál og lögfræðilegri greiningu hans óviðkomandi hvernig nýir forystumenn fara með vald sitt og aðgang að tölvupóstum fyrrverandi starfsmanna. Þeim ber skýr og ótvíræð skylda til þess að umgangast gagnagrunna og skjöl félagsins, þ.m.t. tölvupósta fyrrum starfsmanna í samræmi við meginreglur um persónuvernd,“ er tekið fram í yfirlýsingunni sem kallar eftir því að Halldór fái tækifæri til þess að svara þeim ásökunum sem hafa birst í fjölmiðlum.

„Það er bæði óásættanlegt að sjá málflutning sem þennan í fjölmiðlum án þess að sá sem borinn er sökum fái tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér, eða kannað hvernig málum var háttað,“ segir í niðurlagi yfirlýsingarinnar.

Starfsmenn ASÍ sem mbl.is hefur rætt við segja mál Halldórs nýjustu og skýrustu birtingarmynd þeirrar menningar og umræðuhefðar sem tilteknir verkalýðsforingjar hafi skapað síðustu mánuði og ár. 

Uggur meðal starfsfólks

Samkvæmt heimildum mbl.is er starfsfólk ASÍ þreytt á því að vera dregið inn í deilur um sambandið. Því hafi verið gerðar upp annarlegar hvatir af formönnum á opinberum vettvangi og sú umfjöllun hafi valdið því að vinnustaðurinn sé óaðlaðandi. Það gildi bæði um núverandi starfsmenn en líka þegar unnið er að nýliðun.

Nýverið sagði Halla Gunnarsdóttir starfi sínu sem framkvæmdastjóri lausu og sagði í samtali við mbl.is að það hefði meðal annars verið vegna þess að hún hafi viljað vinna með Drífu Snædal sem sagði af sér í ágúst.

Starfsmenn ASÍ sem mbl.is hefur rætt við segja marga starfsmenn hugsa sér til hreyfings og komandi kosningar til forseta kunni að spila þar inn í líkt og fyrr segir. Ekki þarf að leita langt aftur í tímann eftir síðustu fjöldauppsögn verkalýðsfélags en Sólveig Anna Jónsdóttir sagði öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar upp þegar hún hlaut kjör sem formaður þess félags í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert