Þóra Birna Ingvarsdóttir
Varðskipið Þór er á leið norður og áætlað er að það komið norður fyrir land í kvöld. Það verður þá til taks þar sem líkur eru á að þörfin verði mest vegna þess ofsaveðurs sem fram undan er.
Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
„Það getur margt komið upp á þar sem skipið kemur að gagni. Það getur til að mynda flutt búnað og mannskap sjóleiðina ef ekki er hægt að fara landleiðina.“
Í óveðrinu sem geisaði í desember 2019 sló rafmagni út á Dalvík og þá kom varðskipið Þór að gagni þar sem það gat framleitt rafmagn fyrir bæinn til bráðabirgða.
Ásgeir segir Landhelgisgæsluna á tánum. „Við erum með tvær þyrluáhafnir og tvær þyrlur klárar. Svo verður fulltrúi frá okkur á samhæfingarstöð almannavarna.“