Þú bjargaðir lífi mínu!

Helgi Björnsson er hrærður yfir viðtökum þjóðarinnar.
Helgi Björnsson er hrærður yfir viðtökum þjóðarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þakklætið var mikið, ég skynjaði það mjög fljótt. Það er enn þá að koma fólk upp að mér á götu sem segist ekki þekkja mig en megi til að þakka mér fyrir að hafa bjargað lífi sínu í Covid. Maður fer bara hjá sér og verður feiminn þegar maður heyrir svona lagað. Við vissum ekkert út í hvað við vorum að fara enda óvissan um framhald faraldursins algjört; markmiðið var bara að létta fólki lífið, ef þess væri nokkur kostur. Þessi viðbrögð hafa snert mig djúpt.“

Þetta segir Helgi Björnsson tónlistarmaður en hann lék stórt hlutverk í lífi margra landsmanna meðan á heimsfaraldri kórónuveirunnar stóð, með tónleikahaldi í Sjónvarpi Símans á sama tíma og samkomubönn voru við lýði í landinu. Fyrst undir nafninu Heima með Helga en síðan Það er komin Helgi.

– Sástu fyrir þér að þátturinn myndi ganga svona lengi?

„Nei, ertu frá þér? Ég var vongóður um að hægt væri að gera þetta nokkrum sinnum en hugsaði ekki lengra. Snjóboltinn hélt bara áfram að rúlla.“

Það er komin Helgi verður ekki á dagskrá í vetur. „Þetta er orðið ágætt, alla vega í bili. Hvað sem síðar verður. Það hefur verið mikið framboð af okkur og ágætt að taka sér smá hvíld. Þetta var líka rosaleg vinna. Þátturinn var varla búinn þegar maður var kominn á fullt að huga að þeim næsta; fá gesti, velja lög, semja sketsa og þar fram eftir götunum.“

Getur vel hugsað sér að vinna meira við sjónvarp

– En hefurðu áhuga á að vinna meira við sjónvarp, jafnvel að öðrum skemmtiþætti?

„Já, ég gæti vel hugsað mér það. Það er gaman að fást við þetta form. Ekkert er fast í hendi en ég er með hugmyndir sem ekki er tímabært að fara út í hér.“

SSSól á æfingu fyrir tónleikana um næstu helgi.
SSSól á æfingu fyrir tónleikana um næstu helgi. Ljósmynd/Mummi Lú


Hann segir Heima með Helga og Það er komin Helgi hafa sýnt og sannað að línuleg dagskrá sé fráleitt að dauða komin. „Það er engin spurning. Það fara ekki allir út að djamma á laugardagskvöldum, sumum finnst bara ljómandi huggulegt að koma sér vel fyrir í sófanum og horfa á skemmtilegt efni í sjónvarpinu og ekki skemmir fyrir ef það er íslenskt. Auðvitað byrjuðum við í Covid og allt það en það var mjög áhugavert að fylgjast með því hvernig þetta þróaðist er á leið.“

Ítarlega er rætt við Helga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en um næstu helgi heldur hann ásamt félögum sínum upp á 35 ára afmæli Síðan skein sól í Háskólabíói. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert