Á Akureyri hefur bætt í vind jafnt og þétt auk þess sem „mígandi rigning“ hefur verið frá því snemma í morgun, að sögn Friðriks Jónssonar varðstjóra hjá slökkviliðinu á Akureyri.
Slökkviliðið fór yfir allan búnað í gær auk þess sem umfangsmiklar ráðstafanir voru gerðar, einkum við höfnina þar sem gerði flóð í haustlægðinni fyrir tveimur vikum.
„Íbúar og þeir sem eru með fyrirtækjarekstur þarna unnu hörðum höndum í gær að tryggja sínar flóðvarnir. Búið er að líma fyrir hurðir og hlaða upp sandpokum. Svo er bærinn búinn að koma upp sérstökum brunnum þarna sem eiga að geta hleypt sjónum út. “
Friðrik segir ljóst að enginn hafi áhuga á því að ganga í gegnum sömu raunirnar tvisvar.
Búist er við truflunum á rafmagni á norðanverðu landinu, en Landsnet hefur varað við því að tilteknar línur kunni að gefa sig. Einkum Kópaskerslína, Laxárlína og Kröflulína.
„Við erum tengd í báðar áttir, til austur og vestur, hér á Akureyri þannig að þó það gæti slegið út í smá tíma þá ætti ekki að líða á löngu þar til við kæmumst í rafmagn á ný. Aðrir staðir austar eru háðari þessum línum, en ég veit að varaaflsvélum hefur verið komið fyrir á einhverjum stöðum til þess að fyrirbyggja að við lendum í aðstæðum eins og í desember 2019.“