„Það hefur verið heldur rólegt en þó eitthvað verið um verkefni. Fólk virðist almennt fara eftir fyrirmælum og halda sig heima,“ segir Karen Ósk Lárusdóttir hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Hún segir björgunarsveitir ekki hafa þurft að fara í mörg útköll það sem af er degi.
„Það hefur verið eitt og eitt fokverkefni og einhverjir fastir bílar.“
„Á Austurlandi held ég að mesti hvellurinn verði í kvöld, það er búist við því að næsta klukkutímann fari að hvessa.
Þannig að ég býst við að það fari að verða meiri læti í veðrinu svona fram eftir kvöldi og skilst að þessu eigi ekkert að ljúka fyrr en á morgun, en hversu mikil áhrif það hefur á landinu get ég ekki alveg sagt til um,“ segir Karen.
„Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu alla daga allan ársins hring og alltaf klárar, þannig að það er engin breyting þar á,“ segir Karen, spurð hvort það verði aukinn viðbúnaður hjá björgunarsveitum í kvöld.