Fastur á spænsku sjúkrahúsi síðan í ágúst

Sigurður Kristinsson missti getuna til að kyngja og fær alla …
Sigurður Kristinsson missti getuna til að kyngja og fær alla fæðu í gegnum sondu. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskur karlmaður á áttræðisaldri hefur verið fastur á sjúkrahúsi á Spáni frá því um miðjan ágúst, en hann fékk heilablóðfall sem varð meðal annars til þess að hann lamaðist vinstra megin á líkamanum.

Maðurinn, Sigurður Kristinsson, er 71 árs og dvelur á Spáni hluta úr ári. Staða Sigurðar fer batnandi að sögn dóttur hans, Rúnu Kristínar.

Hann mátti ekki fljúga til Íslands fyrr en mánuði eftir heilablóðfallið og dvaldi því á sjúkrahúsi í Torrevieja í rúmar þrjár vikur, en nær allan þann tíma óskuðu læknar eftir því að hann yrði fluttur á aðra stofnun, þar sem hann var ekki í lífshættu. Fjölskylda Sigurðar leitaði því aðstoðar ræðismanns Íslands á Spáni, sem og Sjúkratrygginga Íslands.

„Sjúkratryggingar vildu ekki veita okkur lista yfir mögulegar stofnanir, þar sem þau mega ekki mæla með einni meðferðarstofnun umfram aðra, þrátt fyrir að vita um möguleg úrræði. Það endaði með því að ritari ræðismannsins fann einkarekið dvalarheimili sem gat tekið við honum tímabundið,“ segir Rúna.

„Búið að vera rosalega erfitt“

Fjölskyldan hafi þó þurft að standa straum af öllum kostnaði, þar sem Sjúkratryggingar greiði ekki fyrir umönnun á einkareknum stofnunum erlendis.

„Óskin var sú að pabbi myndi styrkjast nægilega á dvalarheimilinu til að geta farið heim í flugvél annað hvort í sæti eða á börum. Því miður gekk það ekki eftir þar sem hann varð fyrir því óláni að detta fram úr rúmi sem var án hliðargrinda.“

Sigurður var þá fluttur á spítala í Murcia, þar sem hann dvelur enn.

„Það er búið að breyta meðferð hjá honum og hann er nú meira meðvitaður og meira vakandi. Aftur á móti er þetta búið að vera rosalega erfitt undanfarið og margt stuðlað að slæmu gengi en vonandi erum við að ná að snúa þróuninni honum í vil.“

Í kjölfar heilablóðfallsins missti Sigurður getuna til að kyngja og þar af leiðandi til að borða og fær nú alla fæðu í gegnum sondu.

„Hann er illa áttaður og hugsanlega missti hann hluta úr sjónsviði. Ætli það séu ekki komnir 40 til 50 dagar í heildina sem við erum búin að vera hérna erlendis og við erum bara tilfinningalega búin á sál og líkama.“

Sigurður er 71 árs og dvelur á Spáni hluta úr …
Sigurður er 71 árs og dvelur á Spáni hluta úr ári. Ljósmynd/Aðsend

Safna fyrir sérhæfðri sjúkraflugvél

Búið er að hrinda af stað söfnun fyrir sérhæfðri sjúkraflugvél til að flytja Sigurð heim til Íslands. Safna þarf rúmlega sex milljónum króna. 

Fjölskylda Sigurðar fékk tilboð frá norska flugfélaginu sem Gísli Finnsson kom heim með. Gísli fannst meðvitunarlaus fyrir utan veitingastað á Spáni þann 21. ágúst og dvaldi á sjúkrahúsi þar til hann komst loks til Íslands í gær.

„Söfnunin gengur ágætlega, en hægt. Við erum komin með tæplega helming upphæðarinnar og því miður myndum við gjarnan vilja vera komin lengra, en við verðum bara að vera þolinmóð,“ segir Rúna.

„Margt smátt gerir eitt stórt og með auðmýkt óskum við eftir stuðningi landsmanna og erum ofsalega þakklát fyrir allan stuðning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka