Réttarlæknir hefur skilað skýrslu í máli manns sem fannst látinn eftir bílveltu í Óshlíð, milli Bolungarvíkur og Hnífsdals, árið 1973.
Þetta staðfestir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is.
Lögreglan í Vestmannaeyjum gróf upp líkamsleifar mannsins í maí síðastliðnum, þar sem talið var að slysið hafi ekki verið nægjanlega upplýst.
Spurður hvort eitthvað í skýrslu réttarlæknis hafi komið lögreglunni á óvart segir Hlynur:
„Hún er nýlega komin til okkar og nú skoðum við skýrsluna vel og vandlega. Síðan metum við næsta skref. Það verður gert opinbert á allra næstu dögum,“ segir Hlynur.
Líkamsleifarnar sem lögreglan gróf upp tilheyra 19 ára pilti sem fannst látinn eftir bílveltu í Óshlíð, milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, fyrir tæpum 50 árum. Hann var farþegi í bíl sem talið er að hafi farið út af í blindbeygju.
Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því í lok maí að henni hefði borist ábending um að umrætt slys hefði ekki verið upplýst nægjanlega á sínum tíma.
Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn eru taldar líkur á því að hægt sé að upplýsa nánar um tildrög atviksins.