Rafmagnslaust varð á Húsavík rétt fyrir klukkan átta í kvöld en þetta staðfestir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, í samtali við mbl.is.
Að hennar sögn var aðeins rafmagnslaust í um fimm mínútur og er rafmagnið því aftur komið á. Hún segir það með öllu óljóst hvers vegna rafmagninu sló út.
Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar, segir að þótt að rafmagni hafi aðeins slegið út í stutta stund hafi fólki samt sem áður brugðið töluvert við það.
„Auðvitað bregður fólki alltaf við þegar rafmagnið fer af en þetta voru bara nokkrar mínútur sem það var rafmagnslaust.“
Að hans sögn sló rafmagni ekki aðeins út á Húsavík heldur á stóru svæði á Norðurlandi. Hann segir aðgerðastjórn á Húsavík vera á stöðufundi eins og er til að reyna að komast að því hvað olli.