Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera rokkstjarna á Íslandi. Helgi Björnsson hefur reynt það á eigin skinni. Þegar Síðan skein sól var að slá í gegn laust fyrir 1990 var hann enn af fullum krafti að leika í leikhúsunum en náði fyrst um sinn að sameina þetta tvennt. Það gat þó verið snúið.
„Blessaður vertu, strax eftir uppklapp í leikhúsinu stökk ég oftar en ekki út í gamla Volvóinn minn og brunaði af stað til að spila á Akranesi, í Keflavík eða á Selfossi. Það var ekki eins og að bílstjóri biði eftir mér.“
Hann hlær.
„Þetta var gert í öllum mögulegum veðrum og stundum stóð tæpt að ég næði í tæka tíð á svið. En maður var ungur og taldi þetta ekki eftir sér.“
Fyrsti sveitaballatúrinn var farinn sumarið 1990 en þá stóðu félagsheimili eins og Freyvangur, Miðgarður, Njálsbúð og Ýdalir í blóma. Ég get svo svarið að ég fæ gæsahúð meðan Helgi telur þetta upp. Gott ef það sækir ekki hreinlega að mér sviti, ég er nefnilega af kynslóðinni sem sótti þessi böll. Og ekki þurfti alltaf að fara af mölinni til að sjá Síðan skein sól og þessi bönd; ég man til dæmis eftir löðursveittum böllum í Sjallanum og skemmtistaðnum 1929 við Ráðhústorgið á Akureyri. Hver man ekki eftir honum? Í gamla Nýja bíói.
„Þetta var frábær tími og alls staðar fullt út úr dyrum,“ rifjar Helgi upp. „Það komu til dæmis 700 manns á fyrsta ballið okkar í Njálsbúð. Stemningin var mjög dínamísk.“
– Gaf þetta þá ekki vel í aðra hönd?
„Þú getur ímyndað þér. Það var fullt af peningum.“
Hann brosir.
Fyrst um sinn var túrað á sumrin en fljótlega dugði það ekki til að svala ballþorsta íslenskra ungmenna. „Þegar mest var spiluðum við þrisvar til fjórum sinnum í viku og tókum bara frí þrjár helgar í janúar og svo aftur helgina eftir verslunarmannahelgi. Þetta var rosaleg keyrsla.“
Það sem meira var, Síðan skein sól lék svo til eingöngu eigið efni. Eitt og eitt tökulag slæddist með.
Sólin var þekkt fyrir líflega framkomu og að skilja allt eftir á sviðinu, eins og sagt er í boltanum. „Já, við vorum þekktir fyrir grenjandi stemningu og lögðum mikið upp úr því að ná góðu sambandi við salinn. Það er vúdúmaster-elementið,“ segir hann og glottir. „Það er engu líkt að vera með 700 til þúsund manns fyrir framan sig og stjórna mannskapnum að vild. Það þarf að nálgast svona böll með meiri ákafa en tónleikana, hafa pensildrættina stærri á striganum, og við kunnum það.“
– Sjálfur hélst þú ekkert aftur af þér?
„Nei, það er alveg rétt,“ svarar hann hlæjandi. „Ég var alveg hamslaus á köflum, klifrandi upp um allt og þar fram eftir götunum. Maður þurfti að vera í góðu formi.“
Ítarlega er rætt við Helga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann fagnar 35 ára afmæli Síðan skein sól ásamt félögum sínum á tónleikum í Háskólabíói um næstu helgi.