„Æfingin gekk mjög vel og allir fóru sáttir en lúnir heim,“ segir Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni, um æfinguna Northern Challenge sem lauk sl. fimmtudag. Þar æfðu sprengjusérfræðingar frá 14 ríkjum NATO viðbrögð við hryðjuverkum en þetta var í 21. skiptið sem slík æfing fór fram hér á landi. Hún fór að mestu fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Að þessu sinni voru aftengdar um 400 sprengjur á tíu dögum.
Æfingin er jafnan umfangsmikil og margvíslegur tækjabúnaður nýttur til hennar. Hingað til lands voru fluttir tólf 20 feta gámar með fraktskipi. Í þeim voru m.a. tveir brynvarðir sprengjuleitarbílar frá hollenska og þýska hernum, sex óbrynvarðir bílar, málmleitartæki, köfunarbúnaður, sérstakir sprengjugallar, hjálmar og vesti, svo fátt eitt sé nefnt. Til landsins komu einnig átta herflutningavélar með mannskap og búnað.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 8. október.