Öllum að óvörum komu tvö lömb í heiminn núna í október í Austurhlíð í Biskupstungum, en slíkt á vart að geta gerst. Meintur faðir er forystuhrúturinn Keisari sem hefur áður náð að lemba ær á röngum tíma.
Ég trúði varla mínum eigin augum, þetta gat ekki verið og ég hrópaði til ömmu Rósu sem var með mér í bílnum: amma, amma, sjáðu! Eru þetta lítil lömb?! segir Egill Freyr Traustason, 10 ára, sem var fyrstur til að taka eftir að tvö nýborin lömb trítluðu á eftir móður sinni á túni þar sem hann hafði farið á rúntinn með ömmu sinni, Rósu Paulsen, bónda í Austurhlíð í Biskupstungum, sl. sunnudag, til að líta eftir kindum ömmu sinnar og afa.
„Ég gat varla trúað þessu heldur,“ segir Rósa og bætir við að hún hafi orðið mjög spennt við að sjá þetta óvænta ungviði og ætlað að stökkva út og huga að hvers kyns lömbin væru. „Egill bannaði mér það, hann var mjög strangur við ömmu sína, sagði að ég mætti ekki trufla kindina, hún væri alveg nýborin og mætti ekki hlaupa frá lömbunum sem voru nýfarin að ganga og rétt svo komin á spena. Ærin er stygg og gaf ekki færi á sér, enda er hún gemlingur og hefur aldrei áður átt lömb, svo ég hlýddi Agli og lét hana vera,“ segir Rósa og bætir við að hún hafi lítið sofið nóttina eftir.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 6. október.