Bjarni Hafþór Helgason, tónskáld, rithöfundur og sitthvað fleira greindist með Parkinson-sjúkdóminn fyrir rúmum þremur árum. Hann segir líkamsrækt og andlegar áskoranir eitt af því fáa sem er viðurkennt að geti dregið úr framgangi sjúkdómsins. Hann stundar hreyfingu eins og framast hann getur en nú skorar hann Parkann á hólm með sögustund í Hlíðarbæ við Akureyri.
Tvö kvöld í vikunni mun hann standa á sviði og segja sögur af sér, vinum og ættingjum. Sögustundin ber yfirskriftina Hristur, ekki hrærður. Þessi titill er skírskotun í sjálfan James Bond en þó kannski frekar í Parkinson-sjúkdóminn því eitt af einkennum hans er skjálfti.
Bjarni Hafþór er gestur Dagmála í dag og ræðir þar sjúkdóminn, húmorinn, sögurnar frá Húsavík og vandamál með þvaglát sem fylgja Parkanum eins og hann gjarnan kallar sjúkdóminn.
Nálgun Haffa, eins og hann er oftast kallaður, á þessa orrustu við ólæknandi taugahrörnunarsjúkdóm er hvetjandi og jafnvel upplífgandi fyrir marga sem glíma við ólíklegustu vandamál.
Hér fylgir með stutt brot úr þættinum en hann er opinn áskrifendum Morgunblaðsins í heild sinni.