Stjórnvöld taka ákvarðanir um málið, ekki Icelandair

Icelandair er stærsti styrktaraðili Iceland Airwaves hátíðarinnar.
Icelandair er stærsti styrktaraðili Iceland Airwaves hátíðarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórnvöld taka ákvarðanir um málefni er varða landamæri Íslands. Flugfélögunum ber að fylgja lögum og geta þau ekki vísað farþegum frá nema af þeim stafi öryggisógn.

Þetta segir Guðni Sigurðsson, sérfræðingur á samskiptasviði Icelandair, spurður út í ákvörðun samtaka um að hvetja listafólk sem á að spila á Iceland Airwaves-hátíðinni, um að koma ekki fram á henni. Flugfélagið er stærsti kostandi hátíðarinnar.

Í yfirlýsingu sem Airwaves sendi til fjölmiðla í dag kom fram að hópurinn, sem berst gegn stefnu ís­lenskra stjórn­valda í málefnum hæl­is­leit­enda, vildi beita Icelandair þrýstingi um að neita að flytja hælisleitendur úr landi sem hefði verið vísað frá. 

Guðni segir flugfélagið hafa fengið veður af þessu máli fyrir helgina. Þá kvaðst hann ekki vita til þess að hópurinn hafi sett sig í samband við Icelandair í tengslum við þetta mál eða að hann hafi áður reynt að beita sér gegn flugfélaginu.

Þurfum að fara eftir lögum

Í yfirlýsingunni frá Iceland Airwaves í dag kom fram að samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er flugfélaginu eingöngu heimilt að neita að fljúga með farþega ef af þeim stafar öryggisógn. Ríkinu sé frjálst að kaupa flugmiða af hvaða flugfélagi sem er í hvaða tilgangi sem er. Þá gæti Iceland Airwaves ekki með nokkrum hætti breytt því.

„Þetta eru flugmiðar sem eru keyptir af íslenska ríkinu og það er ríkið sem tekur ákvarðanir um svona landamæramál en auðvitað ekki Icelandair. Við þurfum að fara að íslenskum lögum og fylgja þeim ákvörðunum sem að stjórnvöld taka,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert