Vilja gera íslenskunni hærra undir höfði

Hér sést að fyrra tungumálið á skiltinu er enska og …
Hér sést að fyrra tungumálið á skiltinu er enska og íslenskan fylgir í kjölfarið. mbl.is/Eggert

Í flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík eru flest skilti með enskuna í forgrunni en íslenskan kemur þar fyrir neðan sem annað tungumál.

Áhersla hefur verið lögð á gera hlut íslenskunnar stærri, hvort sem það er hjá opinberum fyrirtækjum, stórfyrirtækjum eða í hönnun erlendra veflausna. Eins og fjallað var um í haust fór íslensk sendinefnd og ræddi við helstu tæknirisana í Kísildalnum í Kaliforníu í Bandaríkjunum um að íslenskan yrði þáttur í veflausnum þessara fyrirtækja.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram í viðtali við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, að ávarp flugliða hafi verið endurskoðað fyrir hálfu ári og eru gestir flugfélagsins nú boðnir velkomnir á íslensku fyrst, en ekki á ensku eins og var.

Eftir samræður við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, segir Bogi að flugfélagið hafi ákveðið að snúa til baka til íslenskunnar sem fyrsta tungumáls félagsins, en enskan tók við sem fyrsta tungumál þegar mikil sprengja varð í komu ferðamanna til landsins, sem fæstir skilja íslensku.

Verður að tryggja gott flæði um völlinn

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, sem rekur Leifsstöð, er að mörgu leyti sammála Boga, en segir flugvöllinn þó enn leggja mikla áherslu á alþjóðlega tungumálið ensku.

„Leiðbeiningaskiltin eða vegvísar hafa ákveðið hlutverk á flugvellinum sem snýr að því að farþegar komist hratt og örugglega milli staða. Mikill meirihluti farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll skilur ekki íslensku,“ segir Guðjón.

„Við höfum enn ekki hafið þá vinnu að endurskoða hvernig við getum mögulega betur sameinað þau sjónarmið að tryggja flæði og öryggi farþega á flugvellinum ásamt því að halda íslenskunni á lofti á sama tíma.“ 

Gestir eiga að upplifa að þeir séu á Íslandi

Guðjón bendir á að það séu miklar breytingar fram undan í flugstöðinni á næstu árum og því mikilvægt að horfa á kerfi leiðbeiningaskilta í mun stærra samhengi.

„Þegar kemur aftur að móti að íslenskri tungu og íslenskri menningu almennt í flugstöðinni þá eru klárlega mikil tækifæri fyrir hendi, enda erum við með íslenska menningu og tungu mjög framarlega í okkar hönnunarforsendum þegar kemur almennt að framtíðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Íslenskan skiptir Isavia miklu máli. Við viljum að farþegarnir okkar upplifi það að þeir séu á Íslandi inni í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert