„Alþýðusambandið er umboðslaust“

Vilhjálmur biður íslenskt launafólk afsökunar fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar.
Vilhjálmur biður íslenskt launafólk afsökunar fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að Alþýðusambandið sé algjörlega óstarfhæft eins og staðan er akkúrat þessar mínúturnar. Enda eru langstærstu félögin farin þar út og Alþýðusambandið er umboðslaust,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is.

Hann dró í dag til baka framboð sitt til 3. varaforseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, drógu einnig framboð sín til baka. Ragnar hafði sóst eftir embætti forseta ASÍ, en Sólveig eftir embætti 2. varaforseta á þingi ASÍ sem nú stendur yfir.

Aldrei nokkurn tíma gerst áður

„Ástæðan er einföld. Við mættum á þetta þing með þá von í brjósti að við myndum vera sameinuð og ganga út sem ein risastór heild. Það gerðist bara strax í gær að við áttuðum okkur á því að það var þarna fólk sem var ekki tilbúið að fara í slíka vegferð nema síður væri. Lagði meira að segja fram tillögu sem er fordæmalaus í íslenskri verkalýðshreyfingu,“ segir Vilhjálmur og vísar þar til tillögu um að ógilda kjörbréf þingfulltrúa Eflingar sem sextán fulltrúar ellefu aðildarfélaga stóðu á bak við.

En Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var sökuð um að hafa handvalið fulltrúa á þingið.

„Þetta hefur aldrei nokkurn tíma gerst áður og það var enginn fótur fyrir slíkri tillögu. Það sýndi okkur bara svo ekki verður um villst að fólk var ekki mætt til að hafa hagsmuni launfólks að leiðarljósi, heldur í annarlegum tilgangi.“

Ótímabært að segja til um úrsögn úr ASÍ

Þá vísar Vilhjálmur til færslu sem Halldóra Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, hafi birt á Facebook-síðu sinni í morgun, sem hafi innihaldið rógburð og ósannindi.

„Þar sem við erum kölluð ofbeldisfólk og við hefðum í hyggju að losa okkur við starfsfólk Alþýðusambands Íslands. Þegar fólk er komið niður á þetta plan, þennan rógburð og ósannindi, þá verður einhvers staðar að setja punkt, ef svo má að orði komast.“

Spurður hvort þau Sólveig og Ragnar hafi ákveðið í sameiningu að draga öll framboð sín til baka, segir Vilhjálmur þau að sjálfsögðu hafa rætt saman sem hópur, ásamt því að funda með sínum þingfulltrúum.

„Það var bara sameiginleg niðurstaða þingfulltrúa og formanna að hér þyrftu leiðir að skiljast.“

En hvað tekur nú við, ætla þessi félög að kljúfa sig frá ASÍ?

„Það er ekki hlutverk einstakra formanna að taka slíkra ákvörðun, þetta er alltaf rætt á vettvangi hvers aðildarfélags fyrir sig. Þannig að það er algjörlega ótímabært að svara því.“

En það kemur til skoðunar?

„Eins og ég segi, að sjálfsögðu þegar svona stórar og miklar ákvarðanir eru teknar þá liggur fyrir að það er ekki ósennilegt að það hafi einhverjar afleiðingar. En það er félagsmanna í viðkomandi félögum að taka slíkar ákvarðanir, það er ekki einstakra formanna.“

Biður íslenskt launafólk afsökunar 

Hefur einhver málefnavinna farið fram á þessu þingi?

„Það er það sorglega í þessu að það hefur lítið verið talað um það sem skiptir máli. Maður taldi sig vera að mæta á þetta þing til þess að ræða raunverulega hvað þyrfti að gera til að bæta hag okkar félagsmanna vegna hækkandi vaxta, hækkandi matarverðs, leiguverðs, bensíns o.s.frv. Nei, það fór meiri tími í að eyða orkunni í þetta. Þá er ekkert annað en að taka ákvörðun um að berjast einhvers staðar annars staðar heldur en inni á þessum vettvangi, því miður.“

Hann segir ekkert eitt hafa verið kornið sem fyllti mælinn. Um sé að ræða langa átakasögu sem hann hélt að væri vilji til að ljúka. Því miður hafi það ekki orðið.

„Þess vegna bið ég íslenskt launafólk afsökunar fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar. Að hún skuli voga sér að haga sér þessum hætti, eins og hluti af fólkinu hagaði sér í gær. Það er bara sorglegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert