ASÍ standi ekki undir sér án Eflingar og VR

Aðalsteinn Árni Baldursson er reynslubolti í íslenskri verkalýðsbaráttu.
Aðalsteinn Árni Baldursson er reynslubolti í íslenskri verkalýðsbaráttu. Ljósmynd/Hafþór

„Þetta er bara sorg­legt. Sorg­legt að þannig sé komið fyr­ir ís­lenskri verka­lýðshreyf­ingu að for­ystu­fólk stórra stétt­ar­fé­laga telji sig knúið til þess að stíga til hliðar vegna hat­urs og róg­b­urðar,” seg­ir Aðal­steinn Árni Bald­urs­son, formaður verka­lýðsfé­lags­ins Fram­sýn­ar.

Hann var viðstadd­ur þing ASÍ í dag þar sem Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, og Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins og Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, drógu fram­boð sín til baka og gengu út af þing­inu.

Menn hafi stundað skemmd­ar­starf­semi

„Það hafa verið hér ákveðnir aðilar inn­an hreyf­ing­ar­inn­ar sem hafa haldið uppi mjög sér­stakri umræðu, rétt eins og við sáum hérna á þing­inu í gær þegar ákveðnir aðilar draga kjörgengi full­trúa Efl­ing­ar í efa. Það er bara skemmd­ar­starf­semi,“ seg­ir Aðal­steinn og hvet­ur þá til að líta sér nær.

„Menn hafa kallað eft­ir breyt­ing­um, og þetta snýst ekki um að fólk sé að berj­ast fyr­ir völd­um held­ur snýst þetta um stefnu. Þetta er bara sorg­legt.“

Fram­haldið velti á umræðum í kvöld

Aðal­steinn seg­ir and­rúms­loftið hafa verið afar þungt í dag, og raun­ar hafi það aldrei verið þyngra. Spurður hvort hann sjái það fyr­ir sér að þingið haldi áfram að öðru óbreyttu í fyrra­málið seg­ir Aðal­steinn kvöldið í kvöld og umræður manna á milli koma til með að ráða því.

„Framtíðin velt­ur á því. Ég treysti því og vona að menn nái sam­an og að stríðandi fylk­ing­ar komi sér sam­an um for­seta og miðstjórn. Og þá fari menn að starfa af heil­ind­um fyr­ir ís­lenskt verka­fólk, því það á ekki að þurfa að upp­lifa þetta.“

Vill sjá sterkt Alþýðusam­band

Aðal­steinn seg­ir að miðað við at­b­urði dags­ins sé full ástæða til þess að hafa áhyggj­ur af framtíð ASÍ. Sól­veig Anna greindi frá því í sam­tali við mbl.is að það væri til skoðunar að draga Efl­ingu út úr sam­band­inu.

Að mati Aðal­steins yrði það slæm þróun fyr­ir verka­lýðshreyf­ing­una í land­inu:

„Við erum hér með Alþýðusam­band Íslands sem er stofnað upp úr 1900 og því komið á sína aðra öld. Ég vil sjá sterkt Alþýðusam­band og hef aldrei séð það fyr­ir mér að klofið Alþýðusam­band skili neinu“.

Aðal­steinn bend­ir á að fé­lög Sól­veig­ar og Ragn­ars Þórs, Efl­ing og VR, greiði mestu gjöld­in til ASÍ. Því myndi út­ganga þeirra fela í sér veru­leg­an tekjum­issi fyr­ir sam­bandið. Sam­bandið hrein­lega reki sig varla án fram­laga þess­ara tveggja fé­laga.

„Ég vona að kvöldið í kvöld og nótt­in verði ár­ang­urs­rík þannig að menn nái sam­an um að halda ASÍ sterku áfram,“ seg­ir Aðal­steinn að lok­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert