ASÍ standi ekki undir sér án Eflingar og VR

Aðalsteinn Árni Baldursson er reynslubolti í íslenskri verkalýðsbaráttu.
Aðalsteinn Árni Baldursson er reynslubolti í íslenskri verkalýðsbaráttu. Ljósmynd/Hafþór

„Þetta er bara sorglegt. Sorglegt að þannig sé komið fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu að forystufólk stórra stéttarfélaga telji sig knúið til þess að stíga til hliðar vegna haturs og rógburðar,” segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar.

Hann var viðstaddur þing ASÍ í dag þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ragn­ar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins og Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, drógu fram­boð sín til baka og gengu út af þinginu.

Menn hafi stundað skemmdarstarfsemi

„Það hafa verið hér ákveðnir aðilar innan hreyfingarinnar sem hafa haldið uppi mjög sérstakri umræðu, rétt eins og við sáum hérna á þinginu í gær þegar ákveðnir aðilar draga kjörgengi fulltrúa Eflingar í efa. Það er bara skemmdarstarfsemi,“ segir Aðalsteinn og hvetur þá til að líta sér nær.

„Menn hafa kallað eftir breytingum, og þetta snýst ekki um að fólk sé að berjast fyrir völdum heldur snýst þetta um stefnu. Þetta er bara sorglegt.“

Framhaldið velti á umræðum í kvöld

Aðalsteinn segir andrúmsloftið hafa verið afar þungt í dag, og raunar hafi það aldrei verið þyngra. Spurður hvort hann sjái það fyrir sér að þingið haldi áfram að öðru óbreyttu í fyrramálið segir Aðalsteinn kvöldið í kvöld og umræður manna á milli koma til með að ráða því.

„Framtíðin veltur á því. Ég treysti því og vona að menn nái saman og að stríðandi fylkingar komi sér saman um forseta og miðstjórn. Og þá fari menn að starfa af heilindum fyrir íslenskt verkafólk, því það á ekki að þurfa að upplifa þetta.“

Vill sjá sterkt Alþýðusamband

Aðalsteinn segir að miðað við atburði dagsins sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur af framtíð ASÍ. Sólveig Anna greindi frá því í samtali við mbl.is að það væri til skoðunar að draga Eflingu út úr sambandinu.

Að mati Aðalsteins yrði það slæm þróun fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu:

„Við erum hér með Alþýðusamband Íslands sem er stofnað upp úr 1900 og því komið á sína aðra öld. Ég vil sjá sterkt Alþýðusamband og hef aldrei séð það fyrir mér að klofið Alþýðusamband skili neinu“.

Aðalsteinn bendir á að félög Sólveigar og Ragnars Þórs, Efling og VR, greiði mestu gjöldin til ASÍ. Því myndi útganga þeirra fela í sér verulegan tekjumissi fyrir sambandið. Sambandið hreinlega reki sig varla án framlaga þessara tveggja félaga.

„Ég vona að kvöldið í kvöld og nóttin verði árangursrík þannig að menn nái saman um að halda ASÍ sterku áfram,“ segir Aðalsteinn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert