Dómari gagnrýnir rannsókn lögreglu

Ljósmynd/Kristinn Freyr

Héraðsdómur Norðurlands eystra sýknaði í síðasta mánuði karl og konu af ákæru fyrir ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot, þar sem ósannað þótti að beitt hefði verið nauðung er parið tók dreng upp í bifreið sína og óku með hann heim til afa síns og ömmu. Þá vekja aðfinnslur dómara á hendur lögreglu í málinu einnig athygli.

Dómarinn gerir m.a. athugasemd við ónákvæmi í skýrslugerð þar sem ranglega var haft eftir brotaþola auk þess sem leiðrétting á lýsingu ákærðu hafi ekki ratað í skýrslu. Þá er lögreglan sögð hafa látið undir höfuð leggjast að taka skýrslur af vitnum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við að upplýsa málið.

Ágreiningur barna við ærslabelg 2019

Málið snýst um ágreining um það hvort karlmaðurinn hafi gerst sekur um ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot með því að hafa veist að tæplega 13 ára gömlum dreng, sem var sakaður um að hafa áreitt son parsins, með því að öskra á hann, skamma, rífa í úlpu hans, draga hann með sér, ýta honum inn í bifreið og setjast síðan sjálfur inn í hana og þvinga með því dreginn til að vera í bílnum á meðan honum var ekið að heimili af drengsins. Með þessu átti maðurinn að hafa sýnt drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi auk ógnandi vanvirðandi framkomu.

Konunni var gefið að sök hlutdeild í þessum brotum með því að hafa ekið bifreiðinni og beði í henni á meðan maðurinn hafi veist að drengnum og neytt hann inn í bifreiðina. Hún hafi síðan ekið af stað með drenginn um borð í bílnum. Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur parinu í apríl 2021, en brotin áttu að hafa verið framin í ágúst 2019. 

Fyrir liggur að ósætti kom upp á milli eldri drengsins og 9 ára sonar parsins við ærslableg á leiksvæði. Það leiddi til þess að yngri drengurinn hringdi skelkaður í foreldra sína sem mættu í kjölfarið á svæðið til að ræða við eldri drenginn, sem fyrr segir. 

Allan vafa skuli skýra sakborningi í hag

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, með hliðsjón af meginreglunni um að allan vafa skuli skýra sakborningi í hag, að ósannað væri að maðurinn hefði sýnt af sér aðra þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru, en að grípa um öxl drengsins og stöðva hann. 

Þá segir dómstóllinn, að ákæruvaldið hafi ekki sannað annað og meira en að maðurinn hafi stöðvað för drengsins því að grípa í peysu hans, en maðurinn kveðst hafa sleppt strax aftur og talað yfirvegað við drenginn sem hafi fallist á að fara með þeim heim til að ræða við forráðamenn sína. „Telst því ósannað að með þessu hafi ákærði skapað svo ógnandi aðstæður gagnvart brotaþola, tæplega 13 ára, að háttsemin verði felld undir ólögmæta nauðung [skv. almennum hegningarlögum].“

Þá var háttsemi mannsins ekki felld undir ákvæði barnaverndarlaga, þó að parið hefðu verið rétt að ræða beint við foreldra drengsins í stað þess að hafa afskipti af honum með þeim hætti sem þau gerðu. Voru þau því sýknuð. 

Vinnubrögð lögreglu í andstöðu við laga um meðferð sakamála

Í lok dómsins gerir dómari aðfinnslur við störf lögreglu í tengslum við rannsókn málsins. 

Fram kemur, að í lögregluskýrslu um skýrslugjöf drengsins, sem er brotaþoli í málinu, 7. janúar 2021 sé ranglega haft eftir honum að maðurinn hefði „strax byrjað að öskra og skammast í honum“, „en þessa lýsing brotaþola er ekki á upptöku af skýrslunni. Þá er þess ekki getið í skýrslunni að brotaþoli hafi í fyrstu svarað því játandi er hann var spurður hvort hann hafi talið sig hafa val um hvort hann  færi með í bíl ákærðu,“ segir í dómnum.

Þá segir, að í lögregluskýrslu af meðákærðu segi m.a. að „X hafi náð honum og haldið laust í hann“.  Dómstóllinn segir að þessi lýsing hafi hins vegar aldrei komið fram hjá ákærðu, heldur í munnlegri  samantekt  lögreglukonu af framburði hennar, sem ákærða hafi leiðrétt við lögreglukonuna þegar í stað og sagði ekki rétt að ákærði hafi haldið í brotaþola, „eins og glöggt má heyra af upptöku af skýrslunni. Þessi leiðrétting var hins vegar ekki færð í skýrsluna. Er þessi ónákvæmni í skýrslugerð lögreglu um mikilvæg atriði aðfinnsluverð,“ segir í dómnum.

Loks segir, að það sé „einnig aðfinnsluvert að lögregla tók hvorki skýrslu af nefndum K, vini brotaþola, sem brotaþoli sagði hafa verið á vettvangi er ákærði kom þangað, né heldur af L, sem D frænka brotaþola nefndi við lögreglu að hafi séð ákærða taka brotaþola upp í bílinn og aka inn á Hafnargötuna í átt að heimili afa hans. Lét lögregla þannig undir höfuð leggjast að taka skýrslur af vitnum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við að upplýsa málið og leiða hið sanna og rétta í ljós. Eru þessi vinnubrögð lögreglu í andstöðu við 1. og 2. mgr. 53. gr., og 54. gr. laga um meðferð sakamála,“ segir í dómi héraðsdóms Norðurlands eystra. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert