Fjöldi flóttamanna skapar álag á kerfin

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverð umræða var á  þinginu í dag þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar skutu föstum skotum á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.  Jón hyggst leggja fram frumvarp til breytingar á lögum um hælisleitendur fljótlega.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var nýkomin af ríkisstjórnarfundi þegar blaðamaður náði í hana til að heyra álit hennar og flokks Vinstri grænna á málefnum hælisleitenda.

Fjöldi frá Venesúela ætti ekki að koma á óvart

„Dómsmálaráðherra hefur ekki lagt fram neinar beinar tillögur um málefni hælisleitenda á þessu þingi. Við erum hins vegar stöðugt að ræða þessi mál á vettvangi ráðherranefndar um útlendinga og innflytjendur.  

Staðan er sú að við erum hér með 3.000 manns sem hafa leitað eftir alþjóðlegri vernd á árinu og þar af eru 2.500 ríflega komin hingað vegna ákvarðana íslenskra stjórnvalda.

Það er að segja annars vegar vegna ákvörðunar okkar um að bjóða velkomin til okkar flóttafólk frá Úkraínu, sem er hátt í 2000 manns, og hins vegar vegna þess að töluverður fjöldi fólks frá Venesúela kemur hingað vegna ákvörðunar kærunefndar útlendingamála, sem er sjálfstæð í störfum sínum um að þetta fólk þurfi viðbótarvernd. Þannig að meirihluti þeirra sem eru að koma hingað eru hér vegna þessara ákvarðana.“  

Allir sammála um að standa með Úkraínu

Hún segir að hún telji alla meðvitaða um að það hafi skapast aukaálag á húsnæðismarkaði, í skólakerfi og víðar en um leið séu þetta ákvarðanir sem hafi verið teknar, til dæmis í málefnum Úkraínu. „Það eru ákvarðanir  sem við höfum staðið við og munum standa við og ég held að engum detti neitt annað í hug.“

Flestir flóttamenn hafa komið frá Úkraínu og Katrín segir alla …
Flestir flóttamenn hafa komið frá Úkraínu og Katrín segir alla flokka vera samstíga um málefni þeirra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnuþátttaka mjög góð

Katrín bendir á að meiri fjöldi fólks frá Venesúela komi hingað til lands en til annarra landa vegna ákvarðana kærunefndar útlendingamála, þannig að sú staða ætti ekki að koma neinum beinlínis á óvart.

„Þarna er ekki um að ræða lagaumhverfi okkar heldur í raun og veru bara þessar ákvarðanir. Þetta snýst ekki um það að hælisleitendur frá Venesúela séu komnir með vernd annars staðar.“

Ekki hægt að horfa fram hjá álagi á innviði

Hún bætir við að þessi hópur hælisleitenda frá Venesúela hafi verið sérstaklega skoðaður og komið hafi fram að atvinnuþátttaka þeirra hérlendis hafi verið mjög góð. Hins vegar þurfi líka að huga að því að mikill fjöldi skapi álag innan kerfisins.

„Það er mikið álag á innviði og þess vegna þurfum við að vera með þessi mál sífellt til skoðunar. Það er ýmislegt sem ég tel að betur mætti fara í því hvernig við tökum á móti fólki, til dæmis hvað varðar íslenskukennslu, sem er algjört lykilatriði ef við ætlum að taka vel á móti fólki hér á Íslandi.“

Mannúðarsjónarmið að leiðarljósi

Katrín bendir einnig á að töluverð eftirspurn sé eftir vinnuafli hérlendis. „Það er alveg ljóst að það mun þurfa fleira fólk til landsins á komandi árum ef við ætlum að anna þeirri eftirspurn. Því er mikilvægt að við greiðum fyrir því að fólk geti komið hingað til að vinna og fari ekki endilega að fara í gegnum kerfi sem veitir alþjóðlega vernd ef það þarf ekki á því að halda.“

Hún segir að það sé að mörgu að huga í þessum málaflokki svo vel sé á málum haldið.

„Stóra myndin hjá okkur í Vinstri grænum er hér eftir sem hingað til að við höfum mannúðarsjónarmið að leiðarljósi og reynum að gera þetta vel og tryggjum um leið ákveðna skilvirkni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert