Fjöldi flóttamanna skapar álag á kerfin

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tals­verð umræða var á  þing­inu í dag þar sem þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar skutu föst­um skot­um á Jón Gunn­ars­son dóms­málaráðherra.  Jón hyggst leggja fram frum­varp til breyt­ing­ar á lög­um um hæl­is­leit­end­ur fljót­lega.

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra var ný­kom­in af rík­is­stjórn­ar­fundi þegar blaðamaður náði í hana til að heyra álit henn­ar og flokks Vinstri grænna á mál­efn­um hæl­is­leit­enda.

Fjöldi frá Venesúela ætti ekki að koma á óvart

„Dóms­málaráðherra hef­ur ekki lagt fram nein­ar bein­ar til­lög­ur um mál­efni hæl­is­leit­enda á þessu þingi. Við erum hins veg­ar stöðugt að ræða þessi mál á vett­vangi ráðherra­nefnd­ar um út­lend­inga og inn­flytj­end­ur.  

Staðan er sú að við erum hér með 3.000 manns sem hafa leitað eft­ir alþjóðlegri vernd á ár­inu og þar af eru 2.500 ríf­lega kom­in hingað vegna ákv­arðana ís­lenskra stjórn­valda.

Það er að segja ann­ars veg­ar vegna ákvörðunar okk­ar um að bjóða vel­kom­in til okk­ar flótta­fólk frá Úkraínu, sem er hátt í 2000 manns, og hins veg­ar vegna þess að tölu­verður fjöldi fólks frá Venesúela kem­ur hingað vegna ákvörðunar kær­u­nefnd­ar út­lend­inga­mála, sem er sjálf­stæð í störf­um sín­um um að þetta fólk þurfi viðbót­ar­vernd. Þannig að meiri­hluti þeirra sem eru að koma hingað eru hér vegna þess­ara ákv­arðana.“  

All­ir sam­mála um að standa með Úkraínu

Hún seg­ir að hún telji alla meðvitaða um að það hafi skap­ast auka­álag á hús­næðismarkaði, í skóla­kerfi og víðar en um leið séu þetta ákv­arðanir sem hafi verið tekn­ar, til dæm­is í mál­efn­um Úkraínu. „Það eru ákv­arðanir  sem við höf­um staðið við og mun­um standa við og ég held að eng­um detti neitt annað í hug.“

Flestir flóttamenn hafa komið frá Úkraínu og Katrín segir alla …
Flest­ir flótta­menn hafa komið frá Úkraínu og Katrín seg­ir alla flokka vera sam­stíga um mál­efni þeirra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

At­vinnuþátt­taka mjög góð

Katrín bend­ir á að meiri fjöldi fólks frá Venesúela komi hingað til lands en til annarra landa vegna ákv­arðana kær­u­nefnd­ar út­lend­inga­mála, þannig að sú staða ætti ekki að koma nein­um bein­lín­is á óvart.

„Þarna er ekki um að ræða lagaum­hverfi okk­ar held­ur í raun og veru bara þess­ar ákv­arðanir. Þetta snýst ekki um það að hæl­is­leit­end­ur frá Venesúela séu komn­ir með vernd ann­ars staðar.“

Ekki hægt að horfa fram hjá álagi á innviði

Hún bæt­ir við að þessi hóp­ur hæl­is­leit­enda frá Venesúela hafi verið sér­stak­lega skoðaður og komið hafi fram að at­vinnuþátt­taka þeirra hér­lend­is hafi verið mjög góð. Hins veg­ar þurfi líka að huga að því að mik­ill fjöldi skapi álag inn­an kerf­is­ins.

„Það er mikið álag á innviði og þess vegna þurf­um við að vera með þessi mál sí­fellt til skoðunar. Það er ým­is­legt sem ég tel að bet­ur mætti fara í því hvernig við tök­um á móti fólki, til dæm­is hvað varðar ís­lensku­kennslu, sem er al­gjört lyk­il­atriði ef við ætl­um að taka vel á móti fólki hér á Íslandi.“

Mannúðarsjón­ar­mið að leiðarljósi

Katrín bend­ir einnig á að tölu­verð eft­ir­spurn sé eft­ir vinnu­afli hér­lend­is. „Það er al­veg ljóst að það mun þurfa fleira fólk til lands­ins á kom­andi árum ef við ætl­um að anna þeirri eft­ir­spurn. Því er mik­il­vægt að við greiðum fyr­ir því að fólk geti komið hingað til að vinna og fari ekki endi­lega að fara í gegn­um kerfi sem veit­ir alþjóðlega vernd ef það þarf ekki á því að halda.“

Hún seg­ir að það sé að mörgu að huga í þess­um mála­flokki svo vel sé á mál­um haldið.

„Stóra mynd­in hjá okk­ur í Vinstri græn­um er hér eft­ir sem hingað til að við höf­um mannúðarsjón­ar­mið að leiðarljósi og reyn­um að gera þetta vel og tryggj­um um leið ákveðna skil­virkni.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert