Jón sakaður um að „spila inn á ótta fólks“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Arndís Anna …
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. Samsett mynd

Þingmenn stjórnarandstöðunnar á Alþingi gagnrýndu dómsmálaráðherra í þingsal í dag varðandi stefnu Íslands í flóttamannamálum. Ráðherra var m.a. sakaður um að „spila inn á ótta fólks“ og koma fram með „óljósar staðhæfingar og fullyrðingar“ varðandi málefni flóttafólks. 

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur boðað að hann muni gera ríkisstjórninni grein fyrir tillögum um hvernig ganga megi enn lengra við að „sníða af vankanta á útlendingalögum“. Í gær mælti hann fyrir frumvarpi til laga um landamæri en í samtali við Morgunblaðið í dag sagði Jón að líða færi að því að frumvarp hans um breytingar á útlendingalögum yrði lagt fram. „Það er verið að vinna að lokafrágangi á því. Við reiknum með að leggja fram þingmálið á þessu tímabili,“ sagði hann en frumvarpið var fyrst boðað á þingmálaskrá í september.

Í umræðum um frumvarp til laga um landamæri í gær sagði Jón að skráningarkerfið, sem lagt væri til að stuðst yrði við í frumvarpinu, fæli í sér strangara eftirlit með för fólks. „Það eru verulegar áhyggjur af því innan Schengen-svæðisins að það sé verið að misnota flóttamannakerfin – og það eru miklu meira en áhyggjur – það er fullkomin vitneskja um það. Lögregluyfirvöld hafa það sérstaklega til eftirlits og rannsóknar,“ sagði hann.

„Ódýr málflutningur“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag, að það væri „ódýr málflutningur að spila inn á ótta fólks til að knýja fram einhverjar tilteknar breytingar, ekki síst þegar stórfelldar breytingar eru boðaðar á kerfi sem á að verja fólk sem er í ákaflega viðkvæmri stöðu.“

Á Alþingi í gær kvaðst Jón vilja ganga enn lengra …
Á Alþingi í gær kvaðst Jón vilja ganga enn lengra í að breyta útlendingalögum en hingað til hefur verið lagt til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmar sagði að Jón hefði því miður fallið „í þann fúla pytt í umræðum hér í þingsal í gær. Hann fullyrti að verið væri að misnota flóttamannakerfið og brjóta flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna án þess að gera minnstu tilraun til að rökstyðja þessa fullyrðingu sína og boðaði harðari aðgerðir sem munu bitna á saklausu fólki,“ sagði Sigmar.

Hann tók jafnframt fram, að ef það væri verið að misnota kerfið og flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna þá þyrfti að segja skýrt frá því hverjir væru að gera það, hvernig það væri gert og hvert umfangið væri. Hingað til hefðu menn forðast þá umræðu.

„Er það virkilega svo að möguleg misnotkun fárra á kerfi eigi sjálfkrafa að leiða til þess að þeim sem þurfa svo sannarlega skjól verði úthýst? Það verður afleiðingin,“ sagði Sigmar. 

Tala skýrt og segja satt

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að Jón hefði látið ýmis ummæli falla sem tilefni væri til að gera athugasemdir við og hafa áhyggjur af.

„Óljósar staðhæfingar og fullyrðingar sem senda þau skilaboð að fólk á flótta, sem leitar hingað skjóls frá stríði og öðrum hörmungum, sé upp til hópa óheiðarlegt, ekki hingað komið til að vinna og vera þátttakendur í samfélaginu og jafnvel hættulegt. Þetta snýst ekki bara um einhvern pólitískan ágreining á milli hæstvirts dómsmálaráðherra og annarra sem eru honum ósammála um stefnu Íslands í flóttamannamálum. Þetta er alvarlegt mál upp á líf og dauða fjölskyldna sem eru venjulegt fólk eins og við. Það, að sjálfur dómsmálaráðherra landsins taki undir og jafnvel stuðli að orðræðu sem er til þess fallin að auka jaðarsetningu fólks sem þegar tilheyrir minnihlutahóp, er grafalvarlegt mál,“ sagði Arndís Anna. 

Hún skoraði jafnframt á Jón og aðra ráðherra að sýna því valdi sem þeim hefði verið falið virðingu „og byrja að tala skýrt og segja satt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert