Notuðu naglamottu til að stöðva ökumann

Bílstjórinn hunsaði fyrirmæli lögreglunnar um að stöðva akstur.
Bílstjórinn hunsaði fyrirmæli lögreglunnar um að stöðva akstur. mbl.is/​Hari

Lögreglumenn veittu ökumanni eftirför um Árbæ, Grafarholt og Mosfellsbæ eftir að hann hafði hunsað fyrirmæli um að stöðva akstur.

Ökumaðurinn ók meðal annars of hratt, yfir hringtorg og á móti akstursstefnu. Þá sáu lögreglumenn ökumann í farsíma við akstur.

Lögreglumenn notuðust við naglamottu til að stöðva akstur bifreiðarinnar og var ökumaðurinn handtekinn í kjölfarið. Hann er grunaður um að aka undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann verður einnig kærður fyrir fjölda umferðarlagabrota. Ökumaðurinn var vistaður í fangageymslu, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Annar ökumaður stöðvaður

Lögreglan stöðvaði annan ökumann í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi eftir að hafa fylgt bifreið hans eftir. Bifreiðin rásaði mikið til og var ökumaður handtekinn grunaður um að vera óhæfur til að aka bifreið sökum misnotkunar lyfja. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð í sýnatöku.

Grunaður um fíkniefnaakstur

Þriðji ökumaðurinn var stöðvaður grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Hann reyndist einnig hafa notað farsíma við akstur, án handfrjáls búnaðar. Þá reyndist hann einnig vera án gildra ökuréttinda.

Tilkynnt var um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í hverfi 108. Búið var að stela útivistarbúnaði.

Einnig var tilkynnt um rúðubrot í fjölbýlishúsi og sömuleiðis um innbrot í nýbyggingu þar sem verkfærum var stolið.

Tilkynning barst jafnframt um þjófnað úr verslun í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert