„Óskiljanlegar ávirðingar felldar úr gildi“

Orri Hauksson, forstjóri Símans, telur dóm héraðsdóms í dag rökréttan …
Orri Hauksson, forstjóri Símans, telur dóm héraðsdóms í dag rökréttan og kveður það gott fyrir atvinnulífið og fyrir neytendur á Íslandi að dómsvaldið sé virkt og geti komist að rökréttri niðurstöðu, eins og hann orðar það. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum mjög sátt við þessa niðurstöðu og höfum aldrei skilið röksemdafærslu Samkeppniseftirlitsins varðandi hvað við eigum að hafa brotið,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í samtali við mbl.is. Til umræðu er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í dag þar sem felld var úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í maí 2020.

Sektaði eftirlitið Símann um 500 milljónir króna vegna mikils verðmunar og ólíkra viðskiptakjara við sölu á Enska boltanum í Símanum Sport. Taldi Samkeppniseftirlitið viðskiptavinum Símans þarna mismunað eftir því hvort Enski boltinn væri boðinn til sölu í svokölluðum Heimilispakka Símans eða í séráskrift.

„Skil­yrð­unum sem Sím­inn braut er ætlað að vinna gegn því að Sím­inn geti, í ljósi sterkrar stöðu sinnar á mik­il­vægum mörk­uðum fjar­skipta, nýtt hið breiða þjón­ustu­fram­boð sitt til þess að draga að sér og halda við­skiptum á þann hátt að keppi­nautar þeirra geti ekki boðið sam­keppn­is­hæft verð eða þjón­ustu. Er skil­yrð­unum ætlað að koma í veg fyrir að Sím­inn geti með þessum hætti tak­markað sam­keppni almenn­ingi til tjóns,“ ritaði Samkeppniseftirlitið á sínum tíma í frétt á vefsíðu sinni. 

„Kaus að fylgja orðalagi í svokölluðum sáttum“

Þessa sektarákvörðun hefur héraðsdómur nú ógilt en áður hafði áfrýjunarnefnd samkeppnismála ógilt hana að hluta og lækkað sektina í 200 milljónir með úrskurði 13. janúar í fyrra. Þarf Samkeppniseftirlitið því að standa Símanum skil á 200 milljónum króna með  dráttarvöxtum.

„Eftirlitið ákveður sérstaklega að fara ekki í rannsókn á mörkuðum heldur kaus að fylgja orðalagi í svokölluðum sáttum sem við höfum gert gegnum tíðina við eftirlitið um tiltekin mál. Stofnunin reynir síðan einhvern veginn að rökstyðja að við höfum brotið þær sáttir,“ heldur Orri áfram og telur niðurstöðu héraðsdóms í dag rökrétta. „Þarna eru óskiljanlegar ávirðingar og ásakanir Samkeppniseftirlitsins felldar úr gildi,“ segir hann enn fremur.

„Þetta hefur þau áhrif að við höfum skýrara athafnafrelsi og skiljum betur réttarrammann sem við vinnum innan. Við töldum einsýnt að við værum að vinna innan þess ramma og þeirra sátta sem við höfum gert, þegar við tókum þær ákvarðanir að fara mjög ódýrt með ensku úrvalsdeildina á markað á sínum tíma. Við fjölguðum leikjum, bættum aðgengi og þjónustu, en Samkeppniseftirlitið taldi okkur einhvern veginn vera að brjóta gamalt samkomulag okkar við stofnunina. Sú röksemdafærsla var í andstöðu við það sem þeir höfðu áður úrskurðað um okkar keppinauta og hvernig mætti tengja saman mismunandi vörur gagnvart viðskiptavinum,“ segir Orri frá.

Love Island með meira áhorf

Hann segir fólk geta náð í þessa þjónustu, útsendingar frá ensku úrvalsdeildinni, sama við hvaða fjarskiptafyrirtæki það skipti. Samkeppniseftirlitið hafi hins vegar reynt að koma því á framfæri að Síminn sneri upp á hendur fólks með því að það yrði að vera með allt hjá Símanum, þótt tugir þúsunda fólks úti um allt land hafi ekki búið við þau skilyrði sem eftirlitið hafi þar lýst og valið sér mismunandi þjónustuþætti frá mismunandi fyrirtækjum að vild.

„Það er ósköp skiljanlegt samkvæmt orðanna hljóðan hvaða reglur gilda og ekkert hægt að toga það og teygja til að fá fram einhverja niðurstöðu sem eftirlitið vildi fá fram. Stofnunin margbreytti um afstöðu í þessu máli, fyrst áttu útsendingar frá ensku úrvalsdeildinni að vera sérstakur markaður, það stóð ekki steinn yfir steini í því, Love Island er með meira áhorf en úrvalsdeildin. Svo áttum við að hafa brotið gamlar sáttir sem var gjörsamlega óskiljanlegt miðað við aðra úrskurði og dómurinn fer bara mjög vel yfir það hvernig hin síðar fram komna röksemdafærsla virkaði ekki heldur,“ segir forstjórinn.

Verður afkoma Símans þá ekki stórum betri eftir niðurstöðuna í dag?

„Það munar auðvitað um að fá 200 milljónir til baka. Í samhengi við sex milljarða EBITDu [nf. EBITDA, rekstrarhagnaður fyrir afskriftir] er það þó hlutfallslega ekki það allra stærsta í okkar rekstri. Hér er í raun mun mikilvægara að farið sé eftir orðanna hljóðan, frekar en einhverju sem verið er að túlka eftir á með óskiljanlegum hætti,“ segir Orri og bætir því við að dómurinn í dag sé mjög jákvæður fyrir neytendur. Orri segir að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi á sínum tíma verið til skaða fyrir neytendur þar sem Síminn hafi þurft að breyta verði og nettóútkoman þá hafi orðið hækkun til neytenda.

„Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulíf og samfélag að reglurnar séu jafnar og að fyrirtæki þurfi ekki að gangast undir sáttir sem eru túlkaðar með mismunandi hætti eftir fyrirtækjum. Þegar tveir aðilar á markaði, eins og Síminn og Vodafone í þessu tilfelli, eru með mjög sambærilegar sáttir um tiltekin atriði, og þær eru túlkaðar mjög ólíkt af hálfu stjórnvalds sem beitt getur þungum sektarheimildum, er mjög gott fyrir atvinnulífið og fyrir neytendur á Íslandi að dómsvaldið sé virkt og geti komist að rökréttri niðurstöðu,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert