Phoenix Jessica Ramos, fyrrverandi vinnustaðaeftirlitsfulltrúi Eflingar, býður sig fram til 1. varaforseta Alþýðusambands Íslands. Frá þessu greindi hún í tilkynningu til fjölmiðla.
Þar segir hún að sér þyki mikilvægt að konur veljist til forystu innan ASÍ og ekki síst konur af erlendum uppruna. Rúmlega fimmtungur (22,5%) félagsfólks ASÍ sé af erlendum uppruna og 80% af innflytjendum á vinnumarkaði séu félagar í félögum sem heyra undir ASÍ.
„Okkar raddir þurfa að heyrast. Ég er félagi í VR og tel líka mikilvægt að VR eigi fulltrúa meðal varaforseta.“
Eitt af helstu áherslumálum Phoenix er vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar. Sjálf starfaði hún sem vinnustaðaeftirlitsfulltrúi hjá Eflingu.
„Þolendur eru nánast alltaf láglaunafólk og oft af erlendum uppruna. Ég vil beita mér fyrir eflingu vinnustaðaeftirlitsins og um leið fyrir bættum réttindum launafólks og raunverulegum viðurlögum gegn launaþjófnaði og öðrum brotum á vinnumarkaði.“
Phoenix er frá New York en flutti til Íslands árið 2015 og starfaði fyrst innan ferðaþjónustunnar. Hún varð virk í verkalýðsbaráttunni þegar hún gegndi starfi trúnaðarmanns VR hjá einu af fyrirtækjunum sem hún starfaði fyrir.