„Við erum að reyna að átta okkur á þessum áverkum sem þarna voru og tilkomu þeirra,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Tveimur mönnum sem voru handteknir í tengslum við rannsókn á andláti konu í Laugardal um helgina var sleppt úr haldi í gær eftir að niðurstaða réttarmeinafræðings sýndi að áverkarnir á konunni hefðu ekki leitt til andláts hennar. Því var ekki lengur grunur um að andlátið hefði borið að með refsiverðum hætti.
Að sögn Margeirs er einhver tími í að endanleg niðurstaða af réttarkrufningu berist.
Hann vill ekkert tjá sig nánar um málið og segir það enn í rannsókn.