Úkraínumenn hafa sakað rússneskar hersveitir um að ræna og misþyrma háttsettum yfirmanni yfir kjarnorkuverinu í Saporisjíu í suðurhluta Úkraínu. Mun þetta vera annar háttsetti yfirmaður kjarnorkuversins sem Rússar eru sagðir hafa rænt.
Í yfirlýsingu frá kjarnorkumálastofnun Úkraínu segir að Valerí Martinjuk, maðurinn sem rússneskar hersveitir eru sakaðar um að ræna, hafi verið yfirmaður yfir mannauðsdeild í kjarnorkuverinu.
Hefur stofnunin jafnframt kallað eftir því að Rafael Grossi, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sem er nú í heimsókn í Rússlandi, sjái til þess að Martinjuk verði sleppt úr haldi.
Saporisjía-héraðið er eitt fjögurra héraða sem Rússar telja sig hafa innlimað í Rússland. Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt ákvörðun Rússa og sagt hana ólögmæta.