Sýkna vegna skorts á lögreglurannsókn

Ökumaður var sýknaður af ákæru fyrir símanotkun þar sem lögregla …
Ökumaður var sýknaður af ákæru fyrir símanotkun þar sem lögregla sinnti ekki rannsóknarskyldu sinni að mati héraðsdóms.

Héraðsdómur Reykjaness kvað á föstudag upp sýknudóm í máli manns sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði ákært fyrir notkun síma við akstur án þess að handfrjáls búnaður væri þar til milligöngu.

Stöðvuðu lögreglumenn á eftirlitsferð ökumanninn við Helluhraun í Hafnarfirði 11. maí í fyrra eftir að þeir höfðu mætt honum og töldu hann þá hafa verið að tala í síma undir stýri. Neitaði maðurinn þessu staðfastlega en undirritaði þó skýrslu á vettvangi.

Var honum sent sektarboð 14. maí en 9. júní ítrekaði maðurinn mótmæli sín í tölvupósti. Kvaðst hann hafa sýnt öðrum lögreglumannanna á vettvangi síma sinn og boðið honum að skoða símtalaskrá en því verið hafnað.

Bað um að fá að sjá upptöku

Í desember gerði maðurinn tilraun til að nálgast gögn um símanotkun sína hjá fjarskiptafyrirtækinu Nova en var þar tjáð að slíkum gögnum væri eytt eftir sex mánuði. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi tók maðurinn fram að engin gögn hefðu verið lögð fram af hálfu lögreglu sem færðu sönnur á sekt hans, eingöngu hefði verið á því byggt að lögreglumaður hafi talið sig sjá, gegnum bílrúðu, að ökumaðurinn væri að nota farsíma.

Þegar maðurinn hefði beðið um að fá að sjá upptöku lögreglu af brotinu hefði hún ekki getað sýnt honum hana en lögregluþjónarnir tjáð honum að hann gæti mætt á lögreglustöðina við Vínlandsleið í Reykjavík og fengið frekari upplýsingar þar.

Þetta gæti ekki nægt til sakfellingar og hefði lögregla vanrækt rannsóknarskyldu sína sem kveðið væri á um í 53. grein laga um meðferð sakamála.

Komu lögreglumennirnir sem vitni fyrir dóminn og kvaðst annar þeirra þá ekki hafa skoðað síma mannins þar sem hann hefði getað verið búinn að eyða nýlegu símtali úr minni símans. Ekki hefði verið leitað í bifreið mannins en vettvangsskýrsla fyllt út. Lögreglumennirnir hefðu hins vegar séð manninn tala í símann sem hefði nægt þeim, í tilvikum sem þessum þyrfti ekki að skoða síma ökumanns.

Ekkert aðhafst til að afla gagna

Í dómsniðurstöðu héraðsdóms kemur fram að sönnunarbyrði um sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu. Dómari meti hvort nægileg sönnun teljist fram komin. Frá upphafi hafi X neitað sök. Lögreglumenn, sem höfðu af honum afskipti, hafi ekkert aðhafst í því augnamiði að afla hugsanlegra tiltækra gagna um sekt ákærða, svo sem að skoða farsíma hans á vettvangi.

Þegar ákærði hélt mótmælum sínum til streitu hjá lögreglu hefði henni verið í lófa lagið, með samþykki mannsins eða eftir atvikum að fengnum dómsúrskurði, að fá upplýsingar um símanotkun hans að kvöldi 11. maí hjá viðkomandi fjarskiptafyrirtæki. Segir svo í dómsorði:

„Þeir sem rannsaka sakamál skulu vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þetta var ekki gert af hálfu lögreglu enda fór í raun engin rannsókn fram á málinu eftir vettvangsrannsókn eins og fram er komið. Af þessu verður ákæruvaldið að bera hallann.“

Auðvelt hafi verið fyrir lögreglu að skera úr um sekt eða sakleysi ákærða með einföldum rannsóknaraðgerðum. Engin eiginleg rannsókn á málinu hafi farið fram hjá lögreglu þrátt fyrir neitun ákærða á sakargiftum allt frá því hann var stöðvaður.

Sýknaði héraðsdómur að lokum manninn af kröfum ákæruvaldsins í málinu og greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Evu Hauksdóttur, sem héraðsdómari taldi hæfilega ákveðin 300.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert