Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, gefur kost á sér í embætti 2. varaforseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), á þingi sambandsins sem nú stendur yfir. Frá þessu greinir hann í tilkynningu til fjölmiðla. Fyrr í dag var greint frá því að Phoenix Jessica Ramos, fyrrverandi vinnustaðaeftirlitsfulltrúi Eflingar, bjóði sig fram til 1. varaforseta.
Í samtali við mbl.is segir Trausti að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram þar sem það sé lýðræðislegur réttur hans. Þá finnst honum mikilvægt að boðið verði upp á fleiri en einn valkost í embætti forseta og varaforseta, en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur þegar gefið kost á sér í embætti 2. varaforseta.
„Ég hef aldrei verið fylgjandi því að fólk fái bara einhver embætti upp í hendurnar. Það er allt í lagi að kjósa um þetta,“ segir Trausti.
„Það er náttúrlega ákveðin ólga innan í þessari hreyfingu. Það eru ákveðnar valdablokkir sem eru búnar að ákveða hvernig þetta á að vera. Það er allt í lagi að sýna að það eru ekki allir sáttir við það.“
Þá þykir Trausta mikilvægt að smærri aðildarfélög á landsbyggðinni eigi fulltrúa innan forystu ASÍ og vill hann beita sér fyrir breiðri samstöðu í kjaraviðræðum vetrarins.
„Það er hverfandi fólk úr miðstjórn og forsetaembættum af landsbyggðinni. Það er nú allt í lagi að það sé einhver af landsbyggðinni sem heldur utan um þau mál sem eru þar,“ segir Trausti.
„Launafólk á mikið undir því að Alþýðusamband Íslands virki sem skyldi,“ segir hann jafnframt.
Trausti telur sig hafa ágætan stuðning en það verði bara að koma í ljós á miðvikdaginn hver raunverulegur stuðningur er.
„Mér finnst þetta bara gaman. Mér finnst gaman að fara í svona framboð og kanna hvernig hugur fólks er þegar kemur að því að kjósa. Það getur verið að margir segi eitthvað fínt við mig núna og kjósi svo eitthvað allt annað, en það er þá bara þeirra.“
Trausti var kjörinn formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar árið 2019 og hefur verið virkur í starfi innan ASÍ síðan þá. Hann hefur meðal annars setið í lífeyrisnefnd ásamt fleiri nefndum.
Trausti starfaði sem sjómaður í tólf ár og var þar áður bakari í áratug. Hann býr nú á Akureyri ásamt eiginkonu og þremur börnum.