Vatnselgurinn upp um niðurföll

Niðurföll hafa ekki undan vatnsflaumnum.
Niðurföll hafa ekki undan vatnsflaumnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Slökkviliðið hefur sinnt fjórum útköllum í dag vegna vatnsflaums í vesturhluta Reykjavíkurborgar og nú síðast á Sundlaugavegi.

Flætt hefur inn í kjallara vegna mikillar rigningar og vatnselgurinn komið upp um niðurföll svo dæla þarf vatninu út.

Þannig þurfti að dæla upp vatni við Ægisíðu, Hagamel, BSÍ og Sundlaugaveg.

Flæddi inn í hús á Sundlaugavegi

Lárus Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu, segir að síðasta útkallið að sinni hafi verið að Sundlaugavegi, þar sem flætt hafði inn í hús, en á þessum tímapunkti sé enginn bíll í útkalli vegna flóðanna.

„Það virðist eins og við höfum náð yfirhöndinni í þessu ástandi og erum ekki með neina bíla úti akkúrat núna, en erum í viðbragðsstöðu eins og alltaf, en ekkert endilega lengur út af vatnselgnum."

Hann segir skemmdir hafa verið minniháttar, enda hafi verið fljótt brugðist við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert