Um það bil 19 þúsund íbúar höfuðborgarsvæðisins 60 ára og eldri þáðu bólusetningu í tveggja vikna átaki í Laugardalshöll sem lauk í síðustu viku. Átakið gekk mjög vel og almennt var mikil ánægja meðal þeirra sem komu með þjónustuna að sögn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Fram kemur í tilkynningu, samtals hafi 19.002 þegið bólusetningu á meðan átakinu stóð.
Boðið var upp á bólusetningu gegn Covid-19 og voru alls 13.125 skammtar gefnir. Aðeins var boðið upp á örvunarskammt fyrir þau sem voru með grunnbólusetningu fyrir. Samhliða var boðið upp á bólusetningu við inflúensu og gat fólk ráðið hvort það fékk bólusetningu við öðrum eða báðum sjúkdómunum. Alls voru gefnir 15.259 skammtar af bóluefni við inflúensu í átakinu í Höllinni, segir jafnframt.
Eftir að átakinu lauk hafa yfir 80 prósent landsmanna yfir 50 ára aldri fengið að minnsta kosti þrjá skammta af bóluefni og vel rúmur helmingur fólks á aldrinum 16 til 50 ára. Um helmingur landsmanna 70 ára og eldri hafa nú fengið fjóra skammta og þriðjungur fólks á aldrinum 60 til 69 ára að sögn heilsugæslunnar.
Nú þegar bólusetningarátakinu í Laugardalshöll er lokið færast bólusetningar við bæði Covid-19 og inflúensu inn á heilsugæslustöðvarnar.