„Það er tvennt sem mig langar að nota tækifærið til að benda hér sérstaklega á af því sem ég tel að sé mjög brýnt að við tökumst á við fljótlega,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi undir liðnum Störf þingsins á fjórða tímanum í dag.
Ræddi Bryndís þar um málefni nýkominna flóttamanna til Íslands og vísaði til þess hvernig staðið væri að þessum málum í Danmörku og Noregi, en þangað hélt hópur íslenskra þingmanna í lok september til að kynna sér vinnubrögð þarlendra.
Sagði Bryndís að í téðum löndum biði flóttafólksins félags-, sálfræði- og læknisþjónusta við komu, auk húsnæðis og fleiri nauðþurfta. „Hér hjá okkur er ekki svo komið, heldur eru búsetuúrræði Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar mjög rýr,“ sagði Bryndís og kvað kerfið á Íslandi búa yfir mjög takmörkuðum leiðum til að koma til móts við þarfir flóttafólks.
Kallaði þingmaðurinn eftir úrbótum í þessum efnum og nefndi enn fremur skólamál sem dæmi. „Við sjáum það og höfum heyrt sögur af því úr sveitarfélögum, sem eru að taka á móti hve flestu flóttafólki, að í skólunum birtast börn bara allt í einu og skólarnir hafa ofboðslega fá og lítil úrræði til að koma til móts við þarfir þessara barna,“ sagði Bryndís og kallaði eftir sértæku skólaúrræði sem héldi utan um börn fyrstu vikurnar, meðal annars með því að aðstoðarfólk sem talaði tungumál barnanna væri til staðar. Þar þyrfti ríkið að leggja fram fjármagn þar sem fæst sveitarfélög væru í stakk búin til að standa undir þeim aukakostnaði sem þessu fylgdi.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók þá til máls og ræddi opið bréf Eyþórs Víðissonar, löggæslu- og öryggisfræðings, til Alþingis, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, en þar viðraði bréfritari áhyggjur sínar af fyrstu skotárásinni hér á landi sem beindist að hópi fólks.
„Ég persónulega vonast til að slík árás verði aldrei,“ sagði Björn Leví og tók undir þá skoðun Eyþórs að fullkomlega óþarft væri að á landinu fyrirfyndist fjöldi hálfsjálfvirkra og sjálfvirkra skotvopna. Nefndi hann meðal annars að vopnalög gerðu ráð fyrir leyfi til handa söfnurum til að flytja slík vopn inn og skoraði á þingheim, eins og Eyþór í bréfi sínu, að gera breytingu á vopnalögum og banna söfnun skotvopna.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók til máls og ræddi um biðraðir í heilbrigðiskerfinu og það ófremdarástand sem þeim fylgdi. „Og staðan á heilsugæslunum er þannig að einhverjar þeirra eru beinlínis hættar að taka við tímapöntunum til læknis,“ sagði Jóhann Páll sem benti auk þess á að álag á heilbrigðisstarfsfólk væri ómanneskjulegt og vísaði til nýlegrar könnunar meðal hjúkrunarfræðinga þar sem fram kom að 70 prósent þeirra hefðu íhugað að snúa sér að öðrum störfum.
Auglýsti þingmaðurinn eftir aðgerðum stjórnvalda í þessum efnum og sagði að í stað stórátaks til að gera störf í heilbrigðisþjónustu eftirsóknarverð kæmi raunverulegur vilji ríkisstjórnarinnar fram á fjárlögum þar sem ekkert blasti við nema niðurskurður til málaflokksins.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, tók til máls og kvað seint þreytast á að stíga í pontu til að ræða orkuöryggi í landinu sem væri þjóðaröryggismál. „Við getum ekki kennt veðrinu einu um þegar kemur að rafmagnsleysi. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara kerfi með fjölbreyttari lausnum,“ sagði Ingibjörg og benti á að starfsemi fyrirtækja á landsbyggðinni ætti allt undir rafmagninu.
Nægði þar að minna á að nýlega hefði starfsemi álversins á Reyðarfirði verið í uppnámi vegna rafmagnsleysis en þar á bæ færi álbráðin að harðna í kerjunum eftir fjórar klukkustundir án rafmagns og stórtjón þá á næsta leiti. Landsnet ynni nú til allra heilla að endurnýjun byggðalínu sem sannarlega væri þarft verk.
„En betur má ef duga skal enda mörg ljón enn í veginum fyrir áframhaldandi endurnýjun byggðalínunnar,“ sagði Ingibjörg og undirstrikaði að óboðlegt væri að fyrirtæki með margra milljarða fjárfestingar byggju við óöryggi í raforkumálum. Mestu skipti þó að uppbygging færi fram með þeim hætti að viðkvæmri náttúru landsins stæði sem minnst röskun af.