Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sakar Isavia um gunguskap í málefnum íslenskrar tungu.
Þetta gerir hann í kjölfar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins, en upplýsingafulltrúi Isavia sagði í samtali við mbl.is á mánudag að ekki væri hafin vinna við að gera íslensku hærra undir höfði í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Eins og þekkt er þá eru merkingar á ensku fyrst, á öllum upplýsingaskiltum flugstöðvarinnar, og svo fylgja yfirleitt merkingar á íslensku, en þó ekki alltaf.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli við Háskóla Íslands, gagnrýndi þetta harðlega í gær og sagði að margsinnis hefðu verið gerðar athugasemdir við það hvernig íslenska fari halloka fyrir ensku á upplýsingaskiltum flugstöðvarinnar.
Ljóst er að Bubba ofbýður sömuleiðis, en hann heggur eftir þeim sömu ummælum upplýsingafulltrúans og Eiríkur gerði að umtalsefni:
„Við höfum enn ekki hafið þá vinnu að endurskoða hvernig við getum mögulega betur sameinað þau sjónarmið að tryggja flæði og öryggi farþega á flugvellinum ásamt því að halda íslenskunni á lofti á sama tíma,“ sagði upplýsingafulltrúinn Guðjón Helgason.
„[E]r þetta fólk ekki í lagi? Hvers konar gunguháttur gagnvart tungunni er þetta?“ spyr Bubbi.
Eiríkur hafði sjálfur gagnrýnt tilsvör upplýsingafulltrúans með sínum hætti:
„Isavia hefur „enn ekki hafið þá vinnu“ að gera íslenskunni hærra undir höfði þrátt fyrir að stjórn Íslenskrar málnefndar hafi nokkrum sinnum skrifað Isavia um málið, bæði 2016 og 2017, en fyrirtækið hefur aldrei látið svo lítið að svara.
Stjórnin skrifaði einnig forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra um málið og fékk lítil viðbrögð, nema hvað samgönguráðuneytið taldi í bréfi frá 18. október 2017 (sem var svar við bréfi stjórnarinnar 17. júní 2016 !!!) að ákvæði laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls þar sem segir að íslenska sé mál stjórnvalda ættu ekki við þótt Isavia sé ríkiseign þar sem engar greiðslur rynnu til þess frá ríkinu – sem er í besta falli umdeilanleg lögskýring.“
Gunnhildur Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia, segir í samtali við ViðskiptaMoggann í dag að það skipti félagið miklu máli að farþegar upplifi flugstöð Leifs Eiríkssonar sem íslenska.
Í viðtalinu er farið yfir áform um stækkun flugstöðvarinnar og fyrirliggjandi útboð á verslun og veitingaþjónustu í flugstöðinni.
„Við viljum að farþegar finni það í hönnun og útliti að þeir séu á Íslandi. Því gerðum við kröfur til bjóðenda að þjónustan skapi sterka staðarupplifun. Til dæmis er mikið lagt upp úr notkun hráefna úr nærumhverfinu í veitingum og að réttirnir gefi sterka vísbendingu um að farþegar séu á Íslandi,“ segir Gunnhildur.
Ekki var minnst á stöðu íslenskunnar innan flugstöðvarinnar.
Morgunblaðið greindi frá því á mánudag að Icelandair hefði ákveðið að setja íslensku aftur í fyrsta sæti, við ávörp flugliða til farþega, eftir að hafa horfið frá því nokkrum árum fyrr.
Að sögn forstjórans Boga Nils Bogasonar höfðu íslenskir farþegar kvartað og lýst því yfir að þeir vilji vera boðnir velkomnir heim á íslensku. Þá ýtti Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra á eftir því að þessu yrði breytt.
„Á fyrsta fundinum sem ég og Lilja áttum eftir að hún tók við þessu starfi sem menningar- og ferðamálaráðherra þá nefndi hún þetta, sem ýtti mjög vel við okkur og við ákváðum bara að breyta þessu til baka,“ sagði Bogi og viðurkenndi að gott væri að geta skipt um skoðun.