„Er þetta fólk ekki í lagi?“

Bubbi er ekki sáttur við svör Isavia og þann skarða …
Bubbi er ekki sáttur við svör Isavia og þann skarða hlut sem íslenskan ber frá borði í flugstöðinni.

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sakar Isavia um gunguskap í málefnum íslenskrar tungu.

Þetta gerir hann í kjölfar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins, en upplýsingafulltrúi Isavia sagði í samtali við mbl.is á mánudag að ekki væri hafin vinna við að gera íslensku hærra undir höfði í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Eins og þekkt er þá eru merk­ing­ar á ensku fyrst, á öll­um upp­lýs­inga­skilt­um flug­stöðvar­inn­ar, og svo fylgja yfirleitt merk­ing­ar á ís­lensku, en þó ekki alltaf. 

Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lensku nú­tíma­máli við Há­skóla Íslands, gagn­rýn­di þetta harðlega í gær og sagði að margsinnis hefðu verið gerðar athugasemdir við það hvernig íslenska fari halloka fyrir ensku á upplýsingaskiltum flugstöðvarinnar.

Gunguháttur gagnvart tungunni

Ljóst er að Bubba ofbýður sömuleiðis, en hann heggur eftir þeim sömu ummælum upplýsingafulltrúans og Eiríkur gerði að umtalsefni:

„Við höf­um enn ekki hafið þá vinnu að end­ur­skoða hvernig við get­um mögu­lega bet­ur sam­einað þau sjón­ar­mið að tryggja flæði og ör­yggi farþega á flug­vell­in­um ásamt því að halda ís­lensk­unni á lofti á sama tíma,“ sagði upplýsingafulltrúinn Guðjón Helgason.

„[E]r þetta fólk ekki í lagi? Hvers konar gunguháttur gagnvart tungunni er þetta?“ spyr Bubbi.

Í besta falli umdeilanleg lögskýring

Eiríkur hafði sjálfur gagnrýnt tilsvör upplýsingafulltrúans með sínum hætti:

„Isa­via hef­ur „enn ekki hafið þá vinnu“ að gera ís­lensk­unni hærra und­ir höfði þrátt fyr­ir að stjórn Íslenskr­ar mál­nefnd­ar hafi nokkr­um sinn­um skrifað Isa­via um málið, bæði 2016 og 2017, en fyr­ir­tækið hef­ur aldrei látið svo lítið að svara.

Stjórn­in skrifaði einnig for­sæt­is­ráðherra, fjár­málaráðherra og sam­gönguráðherra um málið og fékk lít­il viðbrögð, nema hvað sam­gönguráðuneytið taldi í bréfi frá 18. októ­ber 2017 (sem var svar við bréfi stjórn­ar­inn­ar 17. júní 2016 !!!) að ákvæði laga um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls þar sem seg­ir að ís­lenska sé mál stjórn­valda ættu ekki við þótt Isa­via sé rík­is­eign þar sem eng­ar greiðslur rynnu til þess frá rík­inu – sem er í besta falli um­deil­an­leg lög­skýr­ing.“

„Exit to Iceland“ eru skilaboðin sem mæta Íslendingum við heimkomu.
„Exit to Iceland“ eru skilaboðin sem mæta Íslendingum við heimkomu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maturinn eigi að vísa til Íslands

Gunn­hild­ur Vil­bergs­dótt­ir, deild­ar­stjóri versl­un­ar og veit­inga hjá Isa­via, segir í samtali við ViðskiptaMoggann í dag að það skipti fé­lagið miklu máli að farþegar upp­lifi flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar sem ís­lenska.

Í viðtalinu er farið yfir áform um stækk­un flug­stöðvar­inn­ar og fyr­ir­liggj­andi útboð á versl­un og veit­ingaþjón­ustu í flug­stöðinni.

„Við vilj­um að farþegar finni það í hönn­un og út­liti að þeir séu á Íslandi. Því gerðum við kröf­ur til bjóðenda að þjón­ust­an skapi sterka staðar­upp­lif­un. Til dæm­is er mikið lagt upp úr notk­un hrá­efna úr nærum­hverf­inu í veit­ing­um og að rétt­irn­ir gefi sterka vís­bend­ingu um að farþegar séu á Íslandi,“ seg­ir Gunn­hild­ur.

Ekki var minnst á stöðu íslenskunnar innan flugstöðvarinnar.

Fyrst kemur enskan og svo fylgir íslenskan. Nema þegar merkingar …
Fyrst kemur enskan og svo fylgir íslenskan. Nema þegar merkingar eru einungis á ensku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelanda­ir skipti um skoðun

Morg­un­blaðið greindi frá því á mánu­dag að Icelanda­ir hefði ákveðið að setja ís­lensku aft­ur í fyrsta sæti, við ávörp flugliða til farþega, eft­ir að hafa horfið frá því nokkr­um árum fyrr.

Að sögn for­stjór­ans Boga Nils Boga­son­ar höfðu ís­lensk­ir farþegar kvartað og lýst því yfir að þeir vilji vera boðnir vel­komn­ir heim á ís­lensku. Þá ýtti Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir ráðherra á eft­ir því að þessu yrði breytt.

„Á fyrsta fund­in­um sem ég og Lilja átt­um eft­ir að hún tók við þessu starfi sem menn­ing­ar- og ferðamálaráðherra þá nefndi hún þetta, sem ýtti mjög vel við okk­ur og við ákváðum bara að breyta þessu til baka,“ sagði Bogi og viður­kenndi að gott væri að geta skipt um skoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert