„Getur hún ekki látið mig í friði, þessi kona?“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hætti við framboð sitt til …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hætti við framboð sitt til forseta ASÍ í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, seg­ir það koma sér á óvart að þingi Alþýðusam­bands Íslands skyldi hafa verið frestað fram á næsta ár. Þá kveðst hann staðfast­ur í sinni ákvörðun og hyggst ekki ætla að bjóða sig fram til for­seta ASÍ. Hann hafi ákveðið þetta í gær­morg­un yfir morg­un­boll­an­um með eig­in­konu sinni og muni standa við það.

„Ég hafði nú reiknað með að þetta lægi bara nokkuð ljóst fyr­ir, að þarna yrði val­in ný for­ysta. Miðað við hvernig hef­ur verið talað og hvað hef­ur verið sagt, þá fannst mér ég verða að stíga til hliðar og gefa nýju fólki rými til að leiða þetta sam­band,“ seg­ir Ragn­ar.

„Miðað við yf­ir­lýs­ing­arn­ar hafði ég lesið það þannig að þetta fólk teldi sig hafa nægi­legt fylgi til þess að fella okk­ur en virt­ist þá alla­vega ekki hafa mikið fylgi til þess að klára dæmið eft­ir að við fór­um af þing­inu. Það finnst mér mjög áhuga­vert, svo ekki sé meira sagt.“

Vissi að árás­un­um myndi ekki linna

Auk Ragn­ars hættu þau Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, og Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins og Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, einnig við fram­boð sitt til miðstjórn­ar ASÍ í gær. 

Hall­dóra Sig­ríður Sveins­dótt­ir, formaður stétt­ar­fé­lags­ins Bár­unn­ar, sagði í viðtali við mbl.is eft­ir að ljóst var þing­inu yrði frestað, að at­b­urðarás­in hefði verið hönnuð fyr­ir þingið. Kæmi þetta henni því ekki á óvart. 

„Þetta lýs­ir í raun­inni bara ná­kvæm­lega ástæðunni fyr­ir því að ég ákvað að stíga til hliðar. Ég vissi það í hjarta mínu að árás­um þessa fólks myndi aldrei linna – þó ég næði kjöri sem for­seti, að þau myndu aldrei hætta. Þau hafa kallað mig of­beld­is­mann, hafa kallað mig valda­sjúk­an, hafa talað um að ég hafi ætlað mér að reka starfs­fólk VR ít­rekað, ít­rekað,“ seg­ir Ragn­ar um um­mæli Hall­dóru.

„Þetta er nátt­úr­lega ekki boðleg­ur mál­flutn­ing­ur. Ég segi bara, get­ur hún ekki látið mig í friði, þessi kona? Ég vil bara fá frið, ég vil fá vinnufrið til þess núna að vinna fyr­ir mitt fé­lag. Hvernig væri ef þau myndu bara gefa mér þenn­an frið? Ég sagði mig frá þessu til að gefa þessu fólki rými til að taka yfir Alþýðusam­bandið, ég hef ekki lýst því yfir að mark­miðin séu ein­hver önn­ur. Þau fengu þetta rými, þau voru með yf­ir­lýst mark­mið um að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að ganga úr skugga um að við næðum ekki kjöri.“

Vara­formaður VR ætlaði að draga fram­boð til baka

Ragn­ar tel­ur ekki ólík­legt að fleiri sem hafa boðið sig fram í miðstjórn ASÍ séu að íhuga að draga fram­boð sitt til baka.

„Eins og til dæm­is vara­formaður VR tók ákvörðun um að draga fram­boð sitt til baka. En hún náði ekki að gera það vegna þess að það var gert hlé á dag­skrá.“

Ekki nóg að rétta þessu fólki ASÍ upp í hend­urn­ar

Seg­ir hann yf­ir­lýs­ing­arn­ar í dag í raun sýna á hvaða veg­ferð þau eru sem hafa verið gagn­rýn­in á fram­boð þre­menn­ing­anna.

Hvað þarf að ger­ast til að þau hætti, til þess að við í VR fáum frið til að vinna fyr­ir fólkið okk­ar? Ég veit ekki hvað þarf til. En þetta er enda­laust. Þetta und­ir­strik­ar ástæðu þess að ég tel ASÍ ekki vera vett­vang fyr­ir kjara­bar­átt­una sem er framund­an. Alla­vega ekki hvað VR varðar. Nú er ég í þeirri stöðu að ég er að ein­beita mér ein­göngu að því að ná fram góðri niður­stöðu fyr­ir okk­ar fé­lags­fólk.

Ragn­ar seg­ir nú í skoðun hvort mögu­legt sé að mynda banda­lög fyr­ir kom­andi kjaraviðræður. Viðræður þess efn­is hafi átt sér stað fyr­ir þingið, m.a. við full­trúa SGS, iðnaðarmanna og Land­sam­bands versl­un­ar­manna.

„Við vor­um að ræða mögu­leik­ana á því að geta unnið sam­an og það var rosa­lega góður andi í hópn­um. Og það vakti í mér góða von að þetta væri hægt að gera á vett­vangi Alþýðusam­bands­ins en ég hafði svo sann­ar­lega rangt fyr­ir mér. Það er ekki einu sinni nóg að rétta þessu fólki Alþýðusam­bandið upp í hend­urn­ar, það þarf að halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert