Hefur fengið stuðning í forsetaframboð

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambandsins, kveðst ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram á þingi ASÍ í embætti forseta í kjölfar fregna gærdagsins. Hann hefur þó fengið stuðningsyfirlýsingar um slíkt framboð.

Þingið hefst að nýju klukkan 10 í dag og samkvæmt upphaflegri dagskrá verða greidd atkvæði um hverjir munu fara með forystu sambandsins klukkan 13. Dagskráin hefur þó riðlast nokkuð til. „Í öllu falli er lagt til með að það verði eftir hádegi,“ segir Kristján.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, og Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins og Verka­lýðsfé­lags Akra­ness drógu öll framboð sín í embætti forseta, 2. og 3. vara­for­seta ASÍ til baka í gær. 

Fréttirnar hafa valdið miklum usla og sett þing ASÍ í uppnám.  

„Ég náði ekki að sofa nógu vel á því

Í viðtali við mbl.is í gær sagðist Kristján þurfa að íhuga stöðu sína og fram­boð eft­ir frétt­ir dags­ins.

„Ég þarf bara að sjá hvað gerist núna á eftir þegar við byrjum og hvernig við náum að vinna með þetta. Ég náði ekki að sofa nógu vel á því,“ segir Kristján spurður hvort einhver ákvörðun liggur fyrir varðandi þessi atriði.

Óttastu að fleiri dragi sig út úr sambandinu í kjölfar frétta gærdagsins?

„Ég svo sem er ekkert að hugsa um það núna. Verkefnið núna er að reyna að finna leiðirnar fram á við þannig að sambandið gangi áfram en auðvitað þegar þetta fer allt af stað þá fer ýmislegt að gerast.“

Hefur þú íhugað að bjóða þig fram í formann?

„Ég hef svo sem ekkert íhugað það mikið. Ég hef fengið stuðningsyfirlýsingar um það en hef ekki tekið neina ákvörðun um slíkt.“

„Þar liggur umboðið hjá aðildarfélögunum“

Eftir að hafa dregið framboð sitt til baka sagði Vil­hjálm­ur Birgisson ASÍ algjörlega óstarfhæft enda væru lang­stærstu fé­lög­in far­in þar út og að Alþýðusam­bandið væri umboðslaust.

Spurður út í þessi ummæli sagði Kristján þingið vera æðsta vald sambandsins og hefði umboð til að ræða þau málefni sem fram fara á þinginu.

„En ef við erum að tala um önnur mál, þar sem við vorum að reyna að teikna upp í aðdraganda þingsins að koma sterkari saman í öðrum málum og kjarasamningum, þar liggur umboðið hjá aðildarfélögunum. Það er alveg ljóst,“ segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert