„Þetta er ekki rétt að einhverjir fjölmiðlar hafi haft samband við mömmu út af einhverjum gömlum dagbókum. Pabbi segist ekki hafa vitað af þeim þótt hann hafi búið með henni, en það er kannski vegna þess að hann og konan hans eru vinir Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram,“ segir Valgerður Þorsteinsdóttir, dóttur Þóru Hreinsdóttur og Þorsteins Eggertssonar, vegna yfirlýsingar sem send var á fjölmiðla á sunnudaginn og greinar sem birtist í kjölfarið á mbl.is sama dag.
Í yfirlýsingunni, sem er undirrituð af Þorsteini Eggertssyni föður Valgerðar, eiginkonu hans Jóhönnu Fjólu Ólafsdóttur og systur Valgerðar, Soffíu Þorsteinsdóttur, er haldið fram að móðir Valgerðar, Þóra Hreinsdóttir, hafi neitað fjölmiðlum í lifanda lífi að fá aðgang að dagbókum hennar og þau viti að hún hefði verið mótfallin þeirri umfjöllun sem Stundin birti á dögunum.
Valgerður segir að allt þetta mál snúist um ákveðna þöggunarhyggju sem hefur verið í þessum málaflokki alla tíð. „Kynslóð pabba og konunnar hans eru af kynslóð þöggunarinnar þar sem öll svona mál voru grafin niður og ekkert talað um,“ segir hún.
Hún er þess fullviss að bak við yfirlýsinguna standi vinur föður hennar, Jón Baldvin Hannibalsson, en á sunnudaginn hafi fjölskyldan verið á ættarmóti og þá hafi faðir hennar sagt að Jón Baldvin hafi kíkt í kaffi á laugardaginn. Hún segir það því enga tilviljun að yfirlýsingin hafi verið send á fjölmiðla daginn eftir.
Valgerður segir að faðir hennar og eiginkona hans forðist að horfast í augu við óþægilega hluti eins og fleiri.
„Pabbi og konan hans, muna ekkert sem er neikvætt eða leiðinlegt. En það er ekki raunveruleikinn. Raunveruleikinn er ekki þannig að þú getir bara strokað yfir allt sem óþægilegt og sett eitthvað annað inn í staðinn sem þér finnst þægilegra. Núna á málið að snúast um að eitthvað sé óviðeigandi frekar en að snúast um staðreyndirnar í málinu sem eru þær að þarna var brotið á barni,“ segir Valgerður og bætir við að í rauninni hafi það verið skylda þeirra sem vissu af málinu í gegnum öll þessi ár að láta vita af því.
Hún segir birtingu dagbókar móður hennar og bréfsins frá Jóni Baldvini ekki tengjast neinum málaferlum sem Jón Baldvin eigi við í dag, þótt vísað í það sé í téðri yfirlýsingu.
„Ég vil bara ekki stroka yfir sögu mömmu. Það er ástæðan fyrst og fremst. Það er komið nóg af þessari endalausu þöggun og þykjast ekkert vita um neitt, jafnvel þótt fólk horfi upp á skelfilegar afleiðingarnar alla daga.“
Hún segir móður sína ekki fengið neina hjálp þegar hún þurfti þess með, enda hafi engin áfallahjálp verið né farið til sálfræðinga. „Hennar lífshlaup var ekkert sanngjarnt og mér finnst að hún eigi líka að njóta réttlætis í sínu lífi,“ segir Valgerður.
„Fjölmiðlar reyndu aldrei að fá þessar dagbækur og það er ekki rétt í þessari yfirlýsingu. Bréfið frá henni fannst af því að það kom til mín í draumi hvar það væri niðurkomið og það finnst mér vera samþykkið frá mömmu.“