Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir það hafa verið rétta ákvörðun að fresta þinginu fram á næsta ár enda hafi aðstæðurnar sem upp voru komnar verið „fordæmalausar“. Þá kveðst hann ekki hafa tekið ákvörðun um hvernig hann muni haga framboði sínu en eins og stendur býður hann sig fram til fyrsta varaforseta ASÍ.
Þá segir hann ómögulegt að segja til um hvort að betri samstaða náist fyrir komandi þing en það sé auðvitað markmiðið.
„Ég held að þetta hafi verið réttasta niðurstaðan á þessum tímapunkti við þessar aðstæður. Ég tel að við hefðum illa geta gert eitthvað annað,“ segir Kristján Þórður í samtali við mbl.is.
„Markmiðið er að reyna halda hópnum saman og þétta raðirnar upp á nýtt. Maður bindur vonir við það takist,“ bætir hann við.
Er raunhæft að það náist sátt innan ASÍ?
„Það er ekkert sjálfgefið í því. Við þurfum að leggja orku í þetta samtal. Við þurfum að taka okkur tíma í þessa vinnu og það er bara það sem við þurfum að gera.“
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness gengu út af þingi ASÍ í gær og drógu jafnframt framboð sín til miðstjórnar ASÍ til baka.
Flestir þingfulltrúar VR og Eflingar gengu jafnframt út og var óvíst hversu margir myndu mæta í dag. Þá var ekki öryggt að meirihluti þingfulltrúa yrði viðstaddur.
Að sögn Kristjáns voru um 200 af 300 þingfulltrúum ASÍ viðstaddir. Þá var tillagan um að fresta þinginu samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
„Það var mikill stuðningur við þessa tillögu.“
Tilkynning verður send út í lok apríl á næsta ári þar sem fram munu koma frekari upplýsingur varðandi þingið.
Að öllu óbreyttu mun Kristján áfram skipa embætti forseta ASÍ fram að næsta þingi. Spurður hvort hann muni segja sig frá formannsembætti Rafiðnaðarsambands Íslands fyrir komandi kjaraviðræður, kveðst hann ekki gera ráð fyrir því.
„Við þurfum einhvern veginn að spila þetta saman eins og við höfum verið að gera að undanförnu. Þetta er auðvitað fordæmalausar aðstæður sem við þurfum að vinna með.“