Gunnhildur Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia, segir það skipta félagið miklu máli að farþegar upplifi flugstöð Leifs Eiríkssonar sem íslenska.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag, þar sem farið er yfir áform um stækkun flugstöðvarinnar og fyrirliggjandi útboð á verslun og veitingaþjónustu í flugstöðinni.
„Við viljum að farþegar finni það í hönnun og útliti að þeir séu á Íslandi. Því gerðum við kröfur til bjóðenda að þjónustan skapi sterka staðarupplifun. Til dæmis er mikið lagt upp úr notkun hráefna úr nærumhverfinu í veitingum og að réttirnir gefi sterka vísbendingu um að farþegar séu á Íslandi,“ segir Gunnhildur.
Athygli vakti í gær þegar Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli við Háskóla Íslands, gagnrýndi svör upplýsingafulltrúa Isavia, þar sem fram kom að ekki væri vinna hafin við að gera íslensku hærra undir höfði í flugstöðinni.
Eins og þekkt er þá eru merkingar á ensku fyrst, á öllum upplýsingaskiltum flugstöðvarinnar, og svo fylgja merkingar á íslensku.
„Auðvitað dettur engum í hug að hætta að hafa ensku á skiltunum. Það er bara verið að fara fram á að þjóðtungan sé höfð á undan, eins og gert er víðast hvar á evrópskum flugvöllum – meira að segja þótt fáir skilji viðkomandi tungumál. Á Írlandi er írska höfð á undan ensku, og í Skotlandi er skosk-gelíska víða á undan ensku,“ sagði Eiríkur meðal annars.
Tók hann einnig fram að margsinnis hefðu verið gerðar athugasemdir við merkingarnar, án árangurs.
„Ef stjórnvöld hafa raunverulegan vilja til að efla íslenskuna og setja hana í forgang þurfa þau að sýna þann vilja í verki.“
Ekki er vikið sérstaklega að þessu atriði í viðtalinu í ViðskiptaMogganum í dag.
Gunnhildur bendir á að Isavia sjái fyrir sér að í náinni framtíð verði 10-20% farþega frá Íslandi, og að flestir farþegar muni aldrei áður hafa farið í gegnum flugstöðina.
„Það skiptir okkur miklu máli að þeir finni að þeir séu á Íslandi. Þessa upplifun viljum við sérstaklega skapa við brottför en hún kemur líka sterkt inn í hönnunina komumegin.“
Morgunblaðið greindi frá því á mánudag að Icelandair hefði ákveðið að setja íslensku aftur í fyrsta sæti, við ávörp flugliða til farþega, eftir að hafa horfið frá því nokkrum árum fyrr.
Að sögn forstjórans Boga Nils Bogasonar höfðu íslenskir farþegar kvartað og lýst því yfir að þeir vilji vera boðnir velkomnir heim á íslensku. Þá ýtti Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra á eftir því að þessu yrði breytt.
„Á fyrsta fundinum sem ég og Lilja áttum eftir að hún tók við þessu starfi sem menningar- og ferðamálaráðherra þá nefndi hún þetta, sem ýtti mjög vel við okkur og við ákváðum bara að breyta þessu til baka,“ sagði Bogi og viðurkenndi að gott væri að geta skipt um skoðun.