Segjast vilja að fólk upplifi Leifsstöð sem íslenska

Merkingar í Leifsstöð eru fyrst á ensku, svo á íslensku.
Merkingar í Leifsstöð eru fyrst á ensku, svo á íslensku.

Gunnhildur Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia, segir það skipta félagið miklu máli að farþegar upplifi flugstöð Leifs Eiríkssonar sem íslenska.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag, þar sem farið er yfir áform um stækkun flugstöðvarinnar og fyrirliggjandi útboð á verslun og veitingaþjónustu í flugstöðinni.

„Við viljum að farþegar finni það í hönnun og útliti að þeir séu á Íslandi. Því gerðum við kröfur til bjóðenda að þjónustan skapi sterka staðarupplifun. Til dæmis er mikið lagt upp úr notkun hráefna úr nærumhverfinu í veitingum og að réttirnir gefi sterka vísbendingu um að farþegar séu á Íslandi,“ segir Gunnhildur.

Athygli vakti í gær þegar Eiríkur Rögnvaldsson, pró­fess­or emer­it­us í ís­lensku nú­tíma­máli við Há­skóla Íslands, gagnrýndi svör upplýsingafulltrúa Isavia, þar sem fram kom að ekki væri vinna hafin við að gera íslensku hærra undir höfði í flugstöðinni.

Eiríkur sagði í gær að margsinnis hefðu verið gerðar athugasemdir …
Eiríkur sagði í gær að margsinnis hefðu verið gerðar athugasemdir við merkingar á flugvellinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöld þurfa að sýna viljann í verki

Eins og þekkt er þá eru merk­ing­ar á ensku fyrst, á öll­um upp­lýs­inga­skilt­um flug­stöðvar­inn­ar, og svo fylgja merk­ing­ar á ís­lensku.

„Auðvitað dett­ur eng­um í hug að hætta að hafa ensku á skilt­un­um. Það er bara verið að fara fram á að þjóðtung­an sé höfð á und­an, eins og gert er víðast hvar á evr­ópsk­um flug­völl­um – meira að segja þótt fáir skilji viðkom­andi tungu­mál. Á Írlandi er írska höfð á und­an ensku, og í Skotlandi er skosk-gelíska víða á und­an ensku,“ sagði Eiríkur meðal annars.

Tók hann einnig fram að margsinnis hefðu verið gerðar athugasemdir við merkingarnar, án árangurs.

Ef stjórn­völd hafa raun­veru­leg­an vilja til að efla ís­lensk­una og setja hana í for­gang þurfa þau að sýna þann vilja í verki.“

10-20% farþega frá Íslandi

Ekki er vikið sérstaklega að þessu atriði í viðtalinu í ViðskiptaMogganum í dag.

Gunnhildur bendir á að Isavia sjái fyrir sér að í náinni framtíð verði 10-20% farþega frá Íslandi, og að flestir farþegar muni aldrei áður hafa farið í gegnum flugstöðina.

„Það skiptir okkur miklu máli að þeir finni að þeir séu á Íslandi. Þessa upplifun viljum við sérstaklega skapa við brottför en hún kemur líka sterkt inn í hönnunina komumegin.“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tjáði Morgunblaðinu að félagið hefði …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tjáði Morgunblaðinu að félagið hefði sett íslensku aftur í fyrsta sæti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair skipti um skoðun

Morg­un­blaðið greindi frá því á mánudag að Icelanda­ir hefði ákveðið að setja ís­lensku aft­ur í fyrsta sæti, við ávörp flugliða til farþega, eft­ir að hafa horfið frá því nokkr­um árum fyrr. 

Að sögn for­stjór­ans Boga Nils Boga­son­ar höfðu ís­lensk­ir farþegar kvartað og lýst því yfir að þeir vilji vera boðnir vel­komn­ir heim á ís­lensku. Þá ýtti Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir ráðherra á eft­ir því að þessu yrði breytt.

„Á fyrsta fund­in­um sem ég og Lilja átt­um eft­ir að hún tók við þessu starfi sem menn­ing­ar- og ferðamálaráðherra þá nefndi hún þetta, sem ýtti mjög vel við okk­ur og við ákváðum bara að breyta þessu til baka,“ sagði Bogi og viður­kenndi að gott væri að geta skipt um skoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert