Þingi Alþýðusambands Íslands hefur verið frestað. Þingfulltrúar greiddu atkvæði um tillögu þess efnis í morgun.
Tilkynning um hvenær nýtt þing verði boðað verður send út í lok apríl á næsta ári.
Þingið, sem hefur verið í uppnámi eftir uppákomu gærdagsins, hófst klukkan tíu en samkvæmt dagskrá átti stjórnarkjör að fara fram eftir hádegi.
Í gær greindu Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, frá því að þau væru búin að draga framboð sín í miðstjórn ASÍ til baka.
Formenn VR og Eflingar gengu af þinginu í gær ásamt flestum þingfulltrúum félaganna.