Íbúar við Holtsveg í Urriðaholti fengu bréf frá VÍS í gær þess efnis að hafa samband við tryggingafélagið til að fá úttekt á skemmdum vegna bilunar í jarðtengistöð HS Veitna í götunni. Bilunin olli því að rafmagnið fór úr 220V hátt í 400V þann 23. september síðastliðinn og heyrst hafði um miklar skemmdir á rafmagnstækjum hjá íbúum götunnar vegna hennar.
Júlíus Jón Jónsson forstjóri HS Veitna segir að fyrirtækið hafi fengið úttekt á biluninni hjá verkfræðistofunni Lotu og niðurstaða þeirra hafi verið sú að ekki hafi neitt verið gert rangt við uppsetningu á kerfinu og að þetta hefði verið bilun. Samkvæmt skaðabótarétti bæri HS Veitur því ekki ábyrgð á biluninni, en stjórn fyrirtækisins ákvað samt að bæta fólki tjónið sem það varð fyrir vegna bilunarinnar.
Nú þegar hafa 56 aðilar tilkynnt tjón til VÍS, en talið er að 119 íbúðir hafi orðið fyrir einhverju tjóni vegna bilunarinnar.
„Þeir halda utan um þetta fyrir okkur þó við sjáum síðan um að greiða bæturnar. Þeir voru búnir að skoða líklega átta tilkynnt tjón og meðaltal skemmda var þar á bilinu 3-400 þúsund hvert tjón, og líklega nær hærri mörkunum. Ef við gerum ráð fyrir að það sé meðaltalið, með þeim fyrirvara að það er ekki búið að skoða tjónið hjá öðllum, þá erum við að tala um heildartjón upp á 20-30 milljónir,“ segir Júlíus.
Í bréfinu sem sent var í gær er fólk beðið um að hafa samband við VÍS, en þar eru tveir sérfræðingar í svona málum og fólk getur fengið þá til sín til að meta tjónið sem sé síðan greitt. „Það tekur kannski einhverja daga, en við erum komin með þetta mál í þennan farveg,“ segir Júlíus.
- Er eitthvað vitað um orsakir þessarar bilunar?
„Þetta er eina kerfi sinnar tegundar á landinu, eða svokallað fimm víra kerfi þar sem að núllið, eða jörðin, er tekin út í götukassa, en ekki töfluna í viðkomandi íbúð. Skemmdir á tækjabúnaði íbúa í hverfinu hafi orðið vegna þess að núllið brann yfir þegar spennan hátt í tvöfaldaðist,“ segir Júlíus.
Hann segir þó hægt að álykta að bilunin hafi orðið vegna mikils álags og að álaginu hafi ekki verið nægilega vel stýrt á fasa. „Það er lagt upp með það að menn dreifi álaginu á fasana en það eru einhver brögð að því að það sé ekki gert og alltof mikið álag sé á einstökum fösum. Það leiðir til hitamyndunar sem er þá yfirleitt upphafið að svona bilunum.“
Júlíus segir að honum finnist mikilvægt að ganga frá þessu máli en síðan þurfi að kynna það betur fyrir yfirvöldum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sér um regluverk í svona málum og þurfa að kynna mikilvægi þess að álagi á fasa sé dreift það vel að svona álag myndist ekki. „Rafverktakar þurfa að passa upp á þetta og eins þarf að skoða það sérstaklega þegar verið er að bæta við rafmagnsfrekum kerfum eftir á,“ segir Júlíus og nefnir sem dæmi rafhleðslukerfi fyrir rafbíla sem víða eru settir upp núna í bílakjöllurum fjölbýlishúsa. „Þá þarf að passa að allar rafbílahleðslurnar séu ekki á einum fasa, ekki síst í stórum fjölbýlishúsum,“ segir hann og bætir við að það sé mjög mikilvægt að dreifa álaginu á alla fasana til að fyrirbyggja of mikið álagí kerfinu.
„Ég er ekki að segja að það hafi gerst þarna, en það er samt möguleiki. Það er gífurlega mikilvægt að taka þetta til skoðunar þegar forsendur breytast í raflögnum og ljóst er að álag muni aukast á kerfinu.“