Vilja áminningar úr starfsmannalögum

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og meðflutningsmenn hennar vilja með …
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og meðflutningsmenn hennar vilja með breytingafrumvarpi sínu fella skyldu til áminningar ríkisstarfsmanna úr lögum um réttindi þeirra og skyldur. mbl.is/Hákon

Breyt­ing­ar á lög­um um starfs­manna­hald rík­is­ins voru mér of­ar­lega í huga þegar ég ákvað að gera at­lögu að því að ná kjöri til Alþing­is,“ sagði Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, þegar hún mælti fyr­ir frum­varpi til breyt­inga á lög­um um rétt­indi og skyld­ur op­in­berra starfs­manna á þing­inu í kvöld.

Kvað Diljá margt hafa breyst síðan nú­gild­andi lög um mála­flokk­inn voru sett árið 1996 og enn meira síðan lög um rík­is­starfs­menn tóku gildi árið 1954. Auk­in hag­kvæmni í rík­is­rekstri og bætt þjón­usta hins op­in­bera hafi verið helstu mark­mið með setn­ingu lag­anna frá 1996.

„Virðulegi for­seti, til­gang­ur þeirra laga­breyt­inga sem ég mæli hér fyr­ir er ein­mitt sá að auka sveigj­an­leika í starfs­manna­haldi rík­is­ins,“ sagði þingmaður­inn og benti á að sam­kvæmt töl­fræði Hag­stof­unn­ar hefði fjöldi launþega hjá hinu op­in­bera numið þriðjungi launa­fólks í land­inu á síðasta ári auk þess sem laun op­in­berra starfs­manna hefðu und­an­farið hækkað mun hraðar en laun á al­menn­um markaði.

Auka þurfi sveigj­an­leika

Sam­bæri­leg breyt­inga­frum­vörp og það, sem Diljá Mist mælti fyr­ir, hafa verið lögð fyr­ir þingið áður, en ekki náð fram að ganga. Breyt­ing­arn­ar miða að því að fella niður þá skyldu for­stöðumanns að áminna starfs­mann með form­leg­um hætti vegna brots á starfs­skyld­um hins síðar­nefnda, eða þegar hann hef­ur ekki staðið und­ir þeim kröf­um sem leiða af starfi hans. Þá er lögð til breyt­ing á und­anþágu­ákvæði lag­anna um tíma­bundna setn­ingu í embætti við sér­stak­ar aðstæður.

Mat flutn­ings­manna frum­varps­ins, sem auk Diljár Mist­ar eru þing­menn­irn­ir Berg­lind Ósk Guðmunds­dótt­ir, Óli Björn Kára­son, Vil­hjálm­ur Árna­son, Guðrún Haf­steins­dótt­ir og Ásmund­ur Friðriks­son, er að auka þurfi sveigj­an­leika í op­in­beru starfs­manna­haldi og ein­falda regl­ur um starfs­lok rík­is­starfs­manna.

„Mik­ill meiri­hluti rík­is­starfs­manna eru hæf­ir starfs­menn sem vinna verk­efni sín sam­visku­sam­lega,“ sagði Diljá og kvað áminn­ing­ar­hluta breyt­inga­til­lög­unn­ar að liðka nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag sem væri þannig úr garði gert að sinnti starfsmaður ekki starfi sínu með viðun­andi hætti gerðu ákvæði starfs­manna­laga rík­inu mjög erfitt fyr­ir að gera breyt­ing­ar á starfs­manna­haldi.

Á að leysa stjórn­völd með öllu und­an áminn­ing­ar­skyldu?

„Það verður auðvitað al­menn krafa, eft­ir sem áður, að mál­efna­leg sjón­ar­mið liggi til grund­vall­ar starfs­lok­um og lausn frá embætti, enda tryggja stjórn­sýslu­lög rík­is­starfs­mönn­um full­nægj­andi rétt­ar­vernd í starfi. Réttarör­yggi op­in­berra starfs­manna í sam­skipt­um við vinnu­veit­enda sinn verður því áfram meira en það sem launþegar búa al­mennt við,“ hélt hún áfram og lagði áherslu á að frum­varpið boðaði ein­göngu auk­inn sveigj­an­leika í op­in­beru starfs­manna­haldi og ein­fald­ari regl­ur við starfs­lok.

Næst tók Jó­hann Páll Jó­hanns­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, til máls og kvaðst fyrst og fremst langa til að for­vitn­ast um hvað flutn­ings­menn frum­varps­ins ætluðu sér að ná fram. „Mig lang­ar að spyrja hvaða réttaráhrif tel­ur hátt­virt­ur þingmaður að brott­hvarf þess­ara ákvæða [21. og 64. grein­ar lag­anna] hafi í för með sér. Myndi þessa laga­breyt­ing, í huga hátt­virts þing­manns, leysa stjórn­völd með öllu und­an skyld­unni til að áminna starfs­mann og veita hon­um færi á að bæta ráð sitt áður en hon­um er sagt, það er að segja í þeim til­vik­um þegar upp­sögn má rekja til þeirra ástæðna sem eru til­greind­ar í 21. grein­inni?“ spurði Jó­hann Páll.

Jóhann Páll Jóhannsson var meðal þeirra sem tóku til máls …
Jó­hann Páll Jó­hanns­son var meðal þeirra sem tóku til máls um breyt­inga­frum­varpið í kvöld. Hann tel­ur brott­fall áminn­ing­ar­skyldu skapa réttaró­vissu meðal rík­is­starfs­manna. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Þessu svaraði Diljá með því að velta upp þeirri spurn­ingu hvort áminn­ing­ar­ferli nú­gild­andi laga væri gott tæki fyr­ir for­stöðumenn rík­is­stofn­ana að beita þegar svo bæri und­ir. „Það væri gam­an að heyra sjón­ar­mið hátt­virts þing­manns um það, hvort hon­um þyki áminn­ing­ar­ferlið vera gott stjórn­tæki,“ sagði Diljá.

Hin al­menna viðvör­un­ar­skylda

Væri ef til vill heppi­legt ef for­stöðumenn gætu gripið til ann­ars úrræðis en að áminna viðkom­andi starfs­mann? „Áminn­ing­in fel­ur í sér mjög nei­kvætt yf­ir­bragð og það er þess vegna sem hún er lítið notuð,“ sagði Diljá og kvað aðrar og væg­ari leiðir hljóta að vera heppi­legri. Nefndi hún þar sem dæmi metnaðarfull­an rík­is­starfs­mann, prýdd­an mann­kost­um sem hefði ekki lík­am­lega burði til að sinna starfi sínu, „mögu­lega vegna óvæntra at­b­urða í sínu lífi. Væri þá ekki erfitt fyr­ir for­stöðumann að vera í þeirri stöðu að þurfa að áminna viðkom­andi?“ spurði Diljá og gekk úr pontu.

Jó­hann Páll tók þá til máls á ný og kvað ábend­ing­ar Diljár skyn­sam­leg­ar. Ástæða spurn­ing­ar hans um hvort laga­breyt­ing­unni væri ætlað að leysa stjórn­völd und­an skyld­unni til að áminna starfs­mann væri meðal ann­ars sú að gjarn­an gleymd­ist að stjórn­völd væru ekki ein­göngu bund­in af ákvæðum starfs­manna­laga í þess­um efn­um, „held­ur líka, eins og hátt­virt­ur þingmaður nefndi í sinni fram­söguræðu, bund­in af stjórn­sýslu­lög­um, bæði skráðum og óskráðum regl­um þeirra. En það eru líka bara ákveðnar al­menn­ar regl­ur á vinnu­markaði, sem gilda bæði um hið op­in­bera og vinnu­veit­end­ur í einka­geir­an­um,“ benti Jó­hann Páll á.

Nefndi hann því næst hina al­mennu viðvör­un­ar­skyldu sem á vinnu­veit­end­um hvíldi, starfs­manni skyldi ávallt gefið færi á að bæta ráð sitt áður en til brottrekstr­ar hans kæmi. Þess­ar regl­ur giltu á op­in­ber­um vinnu­markaði sem í einka­geira þótt þar með væri ekki sagt að farið væri eft­ir þeim að öllu leyti. Málsmeðferðarregl­ur starfs­manna­lag­anna geri aðstæður skýr­ari og spurði þingmaður­inn sig hvort ein­falt brott­fall þeirra ákvæða, sem frum­varpið mæl­ir fyr­ir um, gerði annað en að skapa réttaró­vissu meðal rík­is­starfs­manna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert