Vilja áminningar úr starfsmannalögum

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og meðflutningsmenn hennar vilja með …
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og meðflutningsmenn hennar vilja með breytingafrumvarpi sínu fella skyldu til áminningar ríkisstarfsmanna úr lögum um réttindi þeirra og skyldur. mbl.is/Hákon

Breytingar á lögum um starfsmannahald ríkisins voru mér ofarlega í huga þegar ég ákvað að gera atlögu að því að ná kjöri til Alþingis,“ sagði Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hún mælti fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna á þinginu í kvöld.

Kvað Diljá margt hafa breyst síðan núgildandi lög um málaflokkinn voru sett árið 1996 og enn meira síðan lög um ríkisstarfsmenn tóku gildi árið 1954. Aukin hagkvæmni í ríkisrekstri og bætt þjónusta hins opinbera hafi verið helstu markmið með setningu laganna frá 1996.

„Virðulegi forseti, tilgangur þeirra lagabreytinga sem ég mæli hér fyrir er einmitt sá að auka sveigjanleika í starfsmannahaldi ríkisins,“ sagði þingmaðurinn og benti á að samkvæmt tölfræði Hagstofunnar hefði fjöldi launþega hjá hinu opinbera numið þriðjungi launafólks í landinu á síðasta ári auk þess sem laun opinberra starfsmanna hefðu undanfarið hækkað mun hraðar en laun á almennum markaði.

Auka þurfi sveigjanleika

Sambærileg breytingafrumvörp og það, sem Diljá Mist mælti fyrir, hafa verið lögð fyrir þingið áður, en ekki náð fram að ganga. Breytingarnar miða að því að fella niður þá skyldu forstöðumanns að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots á starfsskyldum hins síðarnefnda, eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Þá er lögð til breyting á undanþáguákvæði laganna um tímabundna setningu í embætti við sérstakar aðstæður.

Mat flutningsmanna frumvarpsins, sem auk Diljár Mistar eru þingmennirnir Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Guðrún Hafsteinsdóttir og Ásmundur Friðriksson, er að auka þurfi sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi og einfalda reglur um starfslok ríkisstarfsmanna.

„Mikill meirihluti ríkisstarfsmanna eru hæfir starfsmenn sem vinna verkefni sín samviskusamlega,“ sagði Diljá og kvað áminningarhluta breytingatillögunnar að liðka núverandi fyrirkomulag sem væri þannig úr garði gert að sinnti starfsmaður ekki starfi sínu með viðunandi hætti gerðu ákvæði starfsmannalaga ríkinu mjög erfitt fyrir að gera breytingar á starfsmannahaldi.

Á að leysa stjórnvöld með öllu undan áminningarskyldu?

„Það verður auðvitað almenn krafa, eftir sem áður, að málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar starfslokum og lausn frá embætti, enda tryggja stjórnsýslulög ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd í starfi. Réttaröryggi opinberra starfsmanna í samskiptum við vinnuveitenda sinn verður því áfram meira en það sem launþegar búa almennt við,“ hélt hún áfram og lagði áherslu á að frumvarpið boðaði eingöngu aukinn sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi og einfaldari reglur við starfslok.

Næst tók Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, til máls og kvaðst fyrst og fremst langa til að forvitnast um hvað flutningsmenn frumvarpsins ætluðu sér að ná fram. „Mig langar að spyrja hvaða réttaráhrif telur háttvirtur þingmaður að brotthvarf þessara ákvæða [21. og 64. greinar laganna] hafi í för með sér. Myndi þessa lagabreyting, í huga háttvirts þingmanns, leysa stjórnvöld með öllu undan skyldunni til að áminna starfsmann og veita honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt, það er að segja í þeim tilvikum þegar uppsögn má rekja til þeirra ástæðna sem eru tilgreindar í 21. greininni?“ spurði Jóhann Páll.

Jóhann Páll Jóhannsson var meðal þeirra sem tóku til máls …
Jóhann Páll Jóhannsson var meðal þeirra sem tóku til máls um breytingafrumvarpið í kvöld. Hann telur brottfall áminningarskyldu skapa réttaróvissu meðal ríkisstarfsmanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þessu svaraði Diljá með því að velta upp þeirri spurningu hvort áminningarferli núgildandi laga væri gott tæki fyrir forstöðumenn ríkisstofnana að beita þegar svo bæri undir. „Það væri gaman að heyra sjónarmið háttvirts þingmanns um það, hvort honum þyki áminningarferlið vera gott stjórntæki,“ sagði Diljá.

Hin almenna viðvörunarskylda

Væri ef til vill heppilegt ef forstöðumenn gætu gripið til annars úrræðis en að áminna viðkomandi starfsmann? „Áminningin felur í sér mjög neikvætt yfirbragð og það er þess vegna sem hún er lítið notuð,“ sagði Diljá og kvað aðrar og vægari leiðir hljóta að vera heppilegri. Nefndi hún þar sem dæmi metnaðarfullan ríkisstarfsmann, prýddan mannkostum sem hefði ekki líkamlega burði til að sinna starfi sínu, „mögulega vegna óvæntra atburða í sínu lífi. Væri þá ekki erfitt fyrir forstöðumann að vera í þeirri stöðu að þurfa að áminna viðkomandi?“ spurði Diljá og gekk úr pontu.

Jóhann Páll tók þá til máls á ný og kvað ábendingar Diljár skynsamlegar. Ástæða spurningar hans um hvort lagabreytingunni væri ætlað að leysa stjórnvöld undan skyldunni til að áminna starfsmann væri meðal annars sú að gjarnan gleymdist að stjórnvöld væru ekki eingöngu bundin af ákvæðum starfsmannalaga í þessum efnum, „heldur líka, eins og háttvirtur þingmaður nefndi í sinni framsöguræðu, bundin af stjórnsýslulögum, bæði skráðum og óskráðum reglum þeirra. En það eru líka bara ákveðnar almennar reglur á vinnumarkaði, sem gilda bæði um hið opinbera og vinnuveitendur í einkageiranum,“ benti Jóhann Páll á.

Nefndi hann því næst hina almennu viðvörunarskyldu sem á vinnuveitendum hvíldi, starfsmanni skyldi ávallt gefið færi á að bæta ráð sitt áður en til brottrekstrar hans kæmi. Þessar reglur giltu á opinberum vinnumarkaði sem í einkageira þótt þar með væri ekki sagt að farið væri eftir þeim að öllu leyti. Málsmeðferðarreglur starfsmannalaganna geri aðstæður skýrari og spurði þingmaðurinn sig hvort einfalt brottfall þeirra ákvæða, sem frumvarpið mælir fyrir um, gerði annað en að skapa réttaróvissu meðal ríkisstarfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert