Andlát: Þórður B. Sigurðsson

Þórður B. Sigurðsson.
Þórður B. Sigurðsson.

Þórður Baldur Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Reiknistofu bankanna, lést 6. október sl. á heimili sínu á Hömrum í Mosfellsbæ, 93 ára að aldri.

Þórður fæddist í Reykjavík 9. júlí 1929. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Þórðarson bankamaður og Ólafía Pétursdóttir Hjaltested en hann ólst upp á heimili móðursystur sinnar, Önnu Kristjönu Hjaltested, og manns hennar, Björns Vigfússonar.

Þórður lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1949 og stundaði nám við lagadeild Háskóla Íslands 1949 til 1952. Hann sótti allmörg námskeið í kerfisfræði hér heima og erlendis á árinum 1972 til 1991.

Þórður starfaði meðal annars hjá Búnaðarbanka Íslands, Landnámi Íslands, Fóður- og fræframleiðslunni í Gunnarsholti, var framkvæmdastjóri Raftækjaverzlunarinnar og stundakennari í Vogaskóla, Fóstruskólanum og Bankamannaskólanum. Hann var forstöðumaður rafreiknideildar Búnaðarbankans 1972-1977 og forstjóri Reiknistofu bankanna frá 1977 til 1996, þegar hann lét af störfum vegna aldurs.

Árið 1979 tók Þórður sér frí frá störfum til að leika hlutverk Björns á Leirum í sjónvarpsmyndinni Paradísarheimt sem gerð var eftir skáldsögu Halldórs Laxness. Síðar tók hann að sér lítil hlutverk í kvikmyndunum Skilaboð til Söndru og Stella í orlofi.

Þórður setti tólf sinnum Íslandsmet í sleggjukasti á árunum 1953-1968, kastaði lengst 54,23 metra. Þá varð hann fimmtán sinnum Íslandsmeistari, síðast 1975. Hann keppti í sleggjukasti á alþjóðlegum mótum fyrir Íslands hönd og keppti einnig í öðrum kastgreinum, einkum í öldungamótum á síðari árum. Honum er eignaður heiðurinn af því að hafa verið frumkvöðull að því að kraftlyftingar voru teknar upp sem æfingar fyrir frjálsíþróttafólk á sjötta áratug síðustu aldar.

Eiginkona Þórðar var Anna Christiane Lárusdóttir Hjaltested sjúkraliði, hún lést 2019. Þau eignuðust sjö börn, barnabörnin eru 23, 34 barnabarnabörn og eitt barnabarnabarnabarn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert